Hugur - 01.01.2002, Page 91
Hugur, 12.-13. ár, 2000-2001
s. 89-96
Jón Ólafsson
Lífsgildi og orðræða siðfræðinnar
Það er auðséð á nýjasta greinasafni Siðfræðistofnunar, Hvers er siðfræð-
in megnug? að heimspekileg siðfræði á íslandi er komin til nokkurs
þroska. Það er mjög ánægjulegt að lesa þetta rit vegna þess að þar gefur
hver greinin af annarri tilefni til rökræðna, höfundarnir virðast flestir
vel skólaðir og heima í því sem efst er á baugi í siðfræði samtímans og
þeir beita bæði lærdómi og umtalsverðri skarpskyggni á íslenskan veru-
leika.
Efnið sem mestur ágreiningur er um í bókinni varðar eina af grund-
vallarspurningum nútímasiðfræði. Þetta er í grófum dráttum spurning-
in um hlutverk og stöðu verðmæta eða gilda annars vegar og reglna hins
vegar í siðfræðilegri rökræðu og umræðu. Þessi ágreiningur gengur eins
og rauður þráður í gengum allt ritið og snertir bæði umræðu um sið-
fræðikennslu sem er mörgum höfundanna ofarlega í huga og hina al-
mennari umræðu um einstök efni siðfræðinnar.
En hver er þessi ágreiningur í hnotskurn?
Við getum sagt að nútímasiðfræði heþist með siðfræði Kants. Einn
nýstárlegasti þátturinn í siðfræðikenningu hans eru skilin sem hann
dregur á milli skynsemi og tilfinninga og sú skoðun að spurningum um
siðferði, um siðlega breytni, skuli svara á grundvelli skynseminnar einn-
ar. Þó að fáir aðhyllist hreinan og ómengaðan kantisma í siðfræði sam-
tímans, þá hefur skynsemishyggja Kants sett mark sitt á alla siðfræði
síðan á dögum hans. Einn angi hennar snýst um það að hve miklu leyti
við getum gert grein fyrir siðareglum án þess að leggja tiltekna verð-
mætadóma til grundvallar. Þetta efni birtist ekki síst í þeim ágreiningi
sem mest ber á í greinum þeirra Róberts Haraldssonar, Jóns Kalmans-
sonar og Vilhjálms Árnasonar. En ekki aðeins í greinum þeirra. Aðrir
höfundar takast með einum eða öðrum hætti á við spurninguna um verð-
89