Búnaðarrit - 01.01.1933, Síða 128
118
BÚNAÐARRIT
málaráðuneytisins. Áður hafði S. í. S. því miður haft
mjög lítil afskifti af verzlun með tilbúinn áburð.
Fyrirkomulag Áburðarsölunnar er svo alkunnugt, að
ekki mun þörf á að fjölyrða um það. Með því að selja
bændum tilbúinn áburð við innkaupsverði, að viðbættri
mjög smávægilegri álagningu, sem hvergi nærri hrekkur
fyrir farmgjöldum og kostnaði, er þeim veittur beinn
styrkur til jarðræktar. Styrkurinn er þó eigi nema önn-
ur hlið málsins; hin hliðin, sem er engu ómerkari, er
sú aðstöðujöfnun, sem fram kemur við það, að innkaupin
eru sameinuð og séð er fyrir því, að allir bændur eigi
kost á að fá áburð með sama verði til hvaða hafnar
sem þeir eiga að sækja, hvort sem það eru aðalhafnir,
sem miklar millilandasiglingar eru á, eða smáhafnir, sem
eiga lítinn eða engan kost slíkra siglinga.
Þótt stundum hafi verið gerðar óeðlilegar kröfur til
Á. R., eins og oft vill verða um starfsemi, sem rekin
er- fyrir reikning ríkissjsðs, og þeir, sem það hafa gert,
hafi einhver klögumál fram að færa, virðast bændur
yfirleitt hafa verið vel ánægðir með Áburðarsöluna og
fyrirkomulag hennar. Ohætt mun að fullyrða að Á. R.
hafi að mörgu leyti verið mjög heppileg ráðstöfun til
tryggingar því, að jarðræktin þróaðist á heppilegan hátt.
Það hefir þótt vilja brenna við hin síðari ár, að sumt
af nýrækt þeirri, sem framkvæmd hefir verið, væri lakar
gerð en skyldi, væri hálfræktun. Án Á. R. hefði vafa-
laust orðið mikið meiri brögð að þessu, því án tilbúins
áburðar hefði ræktunin víða lent í öngþveiti áburðar-
skorts og misfella, sem honum eru samfara, en annars-
staðar hefði áburðarskorturinn stemmt stigu fyrir auk-
inni ræktun, svo hún hefði orðið lítil eða engin, þrátt
fyrir jarðabótastyrkinn.
Tölur þær, sem hér fara á eftir, gefa ýmsar upplýs-
ingar um notkun tilbúins áburðar, þau ár, sem Á. R.
hefir starfað, og líka lengra aftur í tímann.