Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Síða 19
BER AÐ TÚLKA FRONĒSIS ÚT FRÁ SIÐFERÐILEGRI STAKHYGGJU ER
BÝÐUR ÖLLUM ALGILDUM REGLUM BIRGINN?
Fronēsis er hjá Aristótelesi vitræn dygð sem þjónar hinum siðrænu dygðum. Þær
síðarnefndu gera fólki kleift að „miða á rétta markið“; sú fyrrnefnda ber skynbragð á
markmiðið og kennir fólki að „nota réttu aðferðina“ (1995, II, bls. 90 [1144a]). Fronēsis
tekur ekki aðeins til hins altæka því að fronēsis varðar athafnir „og athafnir varða hið
einstaka“ (1995, II, bls. 78 [1141b]). Þessi vitræna dygð hjálpar okkur þannig að veita
siðrænu dygðunum réttan farveg: fyrst að finna farveginn og svo að rata hann frá
upptökum til ósa. Fronēsis er í raun „ástand sem lýtur sönnum rökum og varðar
athöfn sem tengist mannlegum gæðum og meinum“ (1995, II, bls. 71 [1140b]). „Af
þessum sökum skiptir ekki litlu máli hverju við venjumst frá blautu barnsbeini,
heldur miklu og reyndar öllu“ (1995, I, bls. 254 [1103b]), því þótt síðar meir megi nota
fronēsis til að leiðrétta þær venjur (siðferðilegu hneigðir) sem okkur voru innrættar í
bernsku þá öðlumst við enga hvöt til slíkra leiðréttinga nema við höfum verið vanin
á mikilvægi þeirra. Með öðrum orðum: Þó að fronēsis sé vitræn fremur en siðræn
dygð/hegðunarvenja þá er hún einnig sjálf „venja“ sem skapast við endurtekna beit-
ingu þess hugsunarháttar sem hún inniber. Fronēsis útheimtir því reynslu og þroska.
Þetta eru nokkrar af staðhæfingum Aristótelesar um fronēsis sem talsmenn FPV
gera sér mat úr. Skilningur þeirra á fronēsis er sá að það sé opið, sveigjanlegt hugtak
er hafi djúptæka þýðingu fyrir menntun. Áherslan er þá lögð á samband hugtaksins
við hin sjónrænu, aðstæðubundnu blæbrigði mannlegrar reynslu. Erfitt er að þýða
fronēsis á íslensku án þess að gefa þetta eða hitt í skyn um merkingu þess. „Siðvit“ er
fallegt orð en nokkuð víðfeðmt og bindur hugtakið að auki eingöngu við siðferði-
legar ákvarðanir (sem ég tel að vísu rétt en þarfnast rökstuðnings síðar). „Hyggindi“
(sem notað er í íslensku þýðingunni frá 1995) er óheppilegt að því leyti að orðið
„hyggindi“ er oft í nútímamáli viðhaft sem samheiti „klókinda“ („hygginda sem í
hag koma“) sem eru óháð og stundum andstæð siðgæði (Aristóteles ræðir raunar slík
„klókindi“ og greinir frá „hyggindum“, 1995, II, bls. 91–92 [1144a]). „Glöggskyggni“
nær vel hinum sjónræna þætti en er siðferðilega hlutlaust. Ég mun því einfaldlega
halda áfram að nota „fronēsis“ óþýtt. Til að taka aftur upp FPV-þráðinn þá benda tals-
menn þess viðhorfs á að þótt fronēsis feli í sér hagnýta þekkingu þá sé það „ekki sjálft
kenning“, né heldur „beiting kenningar á einstök tilvik“ (Dunne, 1993, bls. 157). Hag-
nýtur siðferðilegur leiðarvísir getur ekki að fullu náð yfir eða innifalið einstök tilvik,
af þeirri einföldu ástæðu að slík tilvik eru seld undir ákveðna óræðni sem ekki er
hægt að komast til botns í nema með því að takast á við tilvikin sjálf þegar þau ber
fyrir okkur (1993, bls. 311). Þetta er fráleitt, að dómi Dunnes, ljóður á ráði fronēsis; nei,
þvert á móti er það „stærsti kostur“ þess (1993, bls. 314). Lokahnykkurinn í FPV-túlk-
uninni er svo að tengja fronēsis við kennslu sem praxis („gjörð“). Kennslustarfið er þá
ekki lengur skilið sem dæmi um kenningu í framkvæmd. Rétt eins og ókleift er að
skilja tiltekna siðareglu út af fyrir sig, nema með því að tengja hana við einstakar að-
stæður á einstökum stað og tíma, eins er ókleift að skilja kennslustarfið almennt sem
dæmi um kenningu (eða safn kenninga – í uppeldis- og kennslufræði o.s.frv.) sem
K R I S T J Á N K R I S T J Á N S S O N
19