Uppeldi og menntun - 01.01.2005, Qupperneq 31
nemar á grunnskólabraut Kennaraháskóla Íslands, síðasta námsári, telja kennara-
námið styðja við þeirra eigin hæfni til að takast á við kennarastarfið. Töluvert hefur
verið skrifað um viðhorf byrjenda í kennslu til eigin hæfni til að takast á við kennara-
starfið og stuðning við slíka hæfni þegar út í starfið er komið (Feiman-Nemser, 2003;
Hoel, 2005; María Steingrímsdóttir, 2005). Minna er vitað um viðhorf kennaranema,
en fyrri rannsóknir benda þó til að kennaranemar hafi fremur áhuga á stuðningi við
að efla hagnýta hlið starfshæfni sinnar en fræðilega (Hafdís Ingvarsdóttir, 1997; Kort-
hagen, 2004; Ragnhildur Bjarnadóttir, 2004). Nýmæli rannsóknarinnar felast í því að
beina athyglinni að sýn kennaranema á eigið nám. Þess er vænst að grein þessi varpi
nýju ljósi á þær breytingar sem verða á starfshæfni kennaranema á námsárunum,
hvað helst hefur áhrif á þær breytingar, og á þá stuðningsramma sem kennaranám
myndar – og að hún verði þannig innlegg í umræður um leiðir til að bæta kennara-
menntun.
FRÆÐILEG UMGJÖRÐ
Í grein minni sem birtist í Uppeldi og menntun (Ragnhildur Bjarnadóttir, 2004) var
fjallað um sýn kennaranema á eigin starfshæfni, og voru þátttakendur þeir sömu og
í þeirri rannsókn sem hér er fjallað um. Í greininni var sett var fram hugtakalíkan í
því skyni að varpa ljósi á ýmsar hliðar og víddir í starfshæfni kennara og kennara-
nema. Var líkanið síðan notað til að greina og ræða hvers konar starfshæfni þátttak-
endurnir telja sig vera að glíma við á námsárunum í KHÍ. Sama hugtakalíkan var haft
til hliðsjónar þegar hluta gagna í þessari rannsókn var aflað og myndar það því fræði-
lega umgjörð um framsetningu og túlkun niðurstaðna ásamt kenningum og hugtök-
um sem varpa ljósi á nám einstaklinga í félagslegu samhengi.
Starfshæfni kennaranema
Hugtakið starfshæfni vísar til þess sem einstaklingurinn er fær um að gera í starfi;
hann býr yfir kunnáttu eða færni sem hann veit hvernig má nota við ákveðnar að-
stæður. Skilgreindar hafa verið ýmsar hliðar og víddir í starfshæfni kennara (Ragn-
hildur Bjarnadóttir, 2004; Jordell, 2003). Starfshæfnin er bæði persónuleg og fagleg.
Hún er fagleg þar sem hún byggir á kunnáttu, eða því sem kennarar hafa lært um
kennslu og menntun barna, og jafnframt persónuleg, byggist m.a. á sjálfsþekkingu og
trú einstaklinga á eigin getu til að ráða við viðfangsefni (Bandura, 1997). Starfshæfn-
in hefur bæði innri og ytri hliðar. Þá er átt við að starfshæfnin er oft sýnileg öðrum,
þ.e. þegar hún birtist í athöfnum, en einnig getur hún verið ósýnileg öðrum þar sem
hún felst í möguleikum til athafna, en ekki í athöfnunum sjálfum. Skýringarmyndina
hér að neðan nota ég til að varpa ljósi á þessa flóknu samsetningu starfshæfni kenn-
ara og kennaranema (Ragnhildur Bjarnadóttir, 2004). Persónuleg og félagsleg hæfni
(að vera), fagleg þekking (að þekkja / vita) og möguleikar á að ígrunda eigið starf (að
ígrunda) eru mikilvægar hliðar starfshæfninnar ekki síður en þekking á því hvernig
unnt er að gera hlutina.
R A G N H I L D U R B J A R N A D Ó T T I R
31