Andvari - 01.01.2011, Side 92
90
ÞORVALDUR GYLFASON
ANDVARI
3 eða 4 í safnskrá. Á henni er þessi áritun: „F. BRYNJULF BERGSLIEN
1872“. Marmarinn er hvítur, næstum eins og nýfallin mjöll. Styttan virðist
yfirleitt ekki hafa vakið sérstaka athygli nema fyrir það, að henni var snúið til
veggjar í grjótkastinu á Alþingishúsið 1949. Morgunblaðið taldi kommúnista
hafa snúið styttunni við með kámugum höndum, enda nudduðu þeir sér því
fastar utan í Jón Sigurðsson sem ódæðisverkin, sem þeir verðu og ynnu,
væru voðalegri. Þjóðviljinn taldi Jón hins vegar hafa snúið sér til veggjar
til að þurfa ekki að verða vitni að samþykkt Alþingis á inngöngu íslands í
Atlantshafsbandalagið. Gunnlaugur Þórðarson dr. jur., fyrrum forsetaritari,
skýrði frá því næstum 30 árum síðar, að hann hefði snúið styttunni við til að
hlífa henni við grjótkastinu.26
Frummyndina, það er eintak listamannsins eftir því sem næst verður komizt,
keypti höfundur þessarar greinar í maí 1995 af listmunasalanum Erwin Anton
Svendsen, Bredgade 4, Kaupmannahöfn. Myndina hafði Svendsen að eigin
sögn keypt úr dánarbúi í Danmörku, og hafði hún síðan staðið heima hjá
honum í tvö ár eða þar um bil, en þó verið höfð til sýnis við og við í búð hans
í Store Strandstræde. Aftan á styttunni er þessi áritun: „11. novbr. 1871. B.
Bergslien“. Fimm dögum síðar var Jóni Sigurðssyni haldin veizlan, þar sem
honum var afhent gifsmynd Bergsliens. Helgi Gíslason myndhöggvari þekkir
styttuna og telur einnig, eins og Svendsen, að hún sé trúlega frummyndin
eða standi mjög nálægt frummyndinni. Heldur óveglegur bráðabirgðastallur
undir henni gæti bent til þess, að þessu eintaki hafi Bergslien haldið eftir
handa sjálfum sér og skilið eftir í Kaupmannahöfn, þegar hann fór aftur
heim til Noregs. Stallarnir undir öllum hinum myndunum, sem frá er sagt að
neðan, eru viðhafnarmeiri. Storknað fljótandi gifs í hvirfli sýnir, að myndin
er afsteypa af leirmynd.
Hvernig eru margar gifsmyndir gerðar eftir einni frummynd? Fyrst mótar
myndhöggvarinn mynd í leir. Síðan er tekið gifsmót af leirnum, og eyðileggst
leirmyndin yfirleitt, þegar mótið er skilið frá henni, enda er leirinn viðkvæmt
efni og endist illa. Síðan er blautt eða fljótandi gifs sett í mótið og storknar,
og þannig verður fyrsta gifsmyndin til, frummyndin. Yfirleitt þarf að brjóta
mótið utan af myndinni. Síðan er hún notuð til að smíða nýtt mót og steypa
nýja mynd, sem verður því jafnan sljórri en frummyndin. Þannig er hægt að
gera margar myndir. Þá þarf að handfjalla hverja gifsmynd, til dæmis til að
jafna för eftir samskeyti í móti og aðrar misfellur, og verða því engar tvær
afsteypur alveg eins. Myndir, sem mót eru steypt eftir, geta einnig sljóvgazt
eða spillzt við það. Þessi leikmannslýsing gæti átt við um gifsmyndirnar, sem
sagt verður frá hér á eftir, og skýrt þann mun, sem á þeim er.
Vitað er um nokkrar gifsafsteypur, sem voru gerðar eftir brjóstmynd
Bergsliens í Kaupmannahöfn. Verður hér sagt frá þeim, sem vitað er
um í opinberri eða hálfopinberri eigu. Ein afsteypan fylgdi Hafnardeild