Andvari - 01.01.2011, Page 144
142
JÓN KARL HELGASON
ANDVARI
er sköpun þeirra og staðsetning liður í því að móta sameiginlegt sögulegt
minni kynslóða og hópa. Saga þeirra er oftar en ekki nátengd þróun pólitísks
valds og valdabaráttu en um leið er hún saga markvissrar gleymsku. „Af
hverju heldurðu að Jónas sé hafður hérna í felum í rjóðri í Hljómskálagarð-
inum meðan dauðyfli eins og Jón Sigurðs stendur fyrir framan Alþingi?“ spyr
Lilja. Hér verður tilraun gerð til að svara þessari spurningu, a.m.k. að hluta.
Hvorug styttan stóð upphaflega á þeim stað þar sem hún stendur nú en örlög
þeirra beggja eru samofin sögu fleiri líkneskja sem sett voru upp í Reykjavík
á síðari hluta nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu, sem og baráttu
íslensku þjóðarinnar fyrir auknu sjálfstæði frá Dönum.
Til að lýsa uppröðun líkneskja af lifandi eða látnum einstaklingum í
opinberu rými getur verið gagnlegt að hafa hliðsjón af skákborði. Ekki þarf
fjörugt ímyndunarafl til að sjá höfuðborgir gömlu evrópsku konungsveldanna
fyrir sér sem risavaxin útitöfl þar sem einvaldar, stríðshetjur og dýrlingar hafa
um langt skeið staðið í öndvegi, framan við opinberar byggingar og höfuð-
kirkjur. í sjálfu sér eru taflmennirnir lítið annað en safn af smálíkneskjum og
margar styttur bæjanna minna á stækkaða taflmenn. Þessi samlíking hefur
að vísu þann annmarka að það er hægara sagt en gert að færa styttur milli
staða en þess eru þó dæmi víða um lönd að róttækar þjóðfélagsbreytingar hafi
haft í för með sér breytingar á þessum vettvangi. Samhliða lýðræðisþróun og
eflingu þjóðríkisins á nítjándu öld var til að mynda teflt fram í borgum og
bæjum Evrópu nýjum flokki minnismerkja, helguðum mönnum sem höfðu
ýmist staðið framarlega í þjóðfrelsisbaráttu viðkomandi lands eða unnið
einhver sérstök afrek á sviði vísinda og lista.5 Þessi líkneski voru gjarnan
fjármögnuð með almennum samskotum enda litið svo á að um væri að ræða
fulltrúa þjóðarinnar allrar fremur en ríkisins eða kirkjunnar. Frumkvæðið
gat komið frá sveitungum, samherjum eða sporgöngumönnum hins látna en
framkvæmdin var oftast í höndum sérstakra minnisvarðanefnda.
Elstu heimildir um íslenska nefnd af þessu tagi er að finna í tímaritunum
Skírni, Nýjurn félagsritum og Fjölni 1844 þar sem birt er boðsbréf um fjár-
söfnun vegna minnisvarða um séra Tómas Sæmundsson (1807-1841), einn af
fjórum stofnendum síðastnefnda tímaritsins. Kveikja söfnunarinnar var sú að
ekkja Tómasar vildi reisa legstein á leiði hans en í boðsbréfinu voru samskotin
réttlætt með eftirfarandi hætti:
Það er hvers góðs manns aðal og einkenni, að vera þakklátur við þá, sem gjört hafa
vel til hans eða að minnsta kosti viljað honum vel. Svo er það og ekki síður fagurt og
viðurkvæmilegt, að fjelög manna láti þakkir í tje við þá, sem til þess hafa unnið. Þó eru
aldrei fegri þakkir goldnar, enn þegar heil þjóð, hvort sent hún er stór eða smá, færir af
heilum hug þekkar þakklætisfórnir yfir moldum framliðins manns.
Á íslandi munu trautt finnast dæmi til, að neinn maður hafi viljað betur fósturlandi
sínu, enn sjera Tómas Sæmundsson.6