Hugur - 01.06.2008, Blaðsíða 112
IIO
Ólafur PállJónsson
er félagsvera. En hvaðan koma viðfangsefni þessarar manneskju? Um hvað hugsar
hún? Við hverju bregst hún? Hvaða markmið setur hún sér?
Það er ekki nóg með að hugsuðurinn eftir Rodin, sem situr þegjandi og í djúp-
um þönkum, skuli ekki gera neitt (annað en að hugsa), og að hann skorti alla
félagsfærni, það er heldur ekki að sjá að hann taki viö neinu. Það er ekki að sjá
að hann sé yfirleitt í neinum tengslum við veröldina í kringum sig, að hann búi
yfir neinum skilningarvitum. Og varla viljum við kalla þá manneskju gagnrýna
sem ekki ber nokkurt skynbragð á umhverfi sitt. Þvert á móti, þá ætti gagnrýnin
skynjun, ekki síður en gagnrýnin hugsun, að vera órofa tengd því að vera gagn-
rýnin manneskja.
Laust eftir aldamótin 1900 vildi Guðmundur Finnbogason raunar gera skynj-
unarþáttinn að einu af kennimörkum hins menntaða manns.
Heimurinn liggur opinn fyrir öllum, en hve óendanlega margt er það
sem menn gefa engan gaum að, af því augað er sljótt? Hve óþrjótandi
uppspretta hreinnar nautnar er ekki fólgin í litskrúði himins, láðs og
lagar, í geisladýrð kvöld- og morgunroðans, í vafurlogavöndum norður-
ljósanna, í formi fjallanna, í hreyfingum hluta og dýra, og hver efast um
að sá sem hefur augun opin fyrir öllu þessu, greinir það, finnur fegurð
þess, sé að sama skapi menntaðri en þeir, sem ganga þess duldir og fara
þess á mis.19
Fyrir Guðmundi er spurningin um menntun því ekki bara spurning um þekkingu
og röklega færni, heldur einnig - og ekki síður — spurning um skynjun. Og þetta er
einmitt mjög viðeigandi því hvað maður slcynjar í umhverfi sínu veltur ekki bara
á því hvað er í umhverfinu og hvernig það snýr við manni. Það veltur ekki síður
á hugferði manns.
I Suðursveit eru víða stórir steinar í brekkunum undir klettunum. Hvað dettur
manni í hug þegar maður sér svona steina? Flestum okkar dettur ekki sérlega
mikið í hug. Þetta eru ósköp venjulegir steinar sem hafa hrunið úr klettunum.
Fyrir okkur er heimurinn ekki lokuð bók, en hann er, að þessu leyti, fremur deyfð-
arleg bók - þurr og fáfengileg. Ekki vegna þess að augun sjá ekki og eyrun heyra
ekki, heldur vegna þess að hugurinn er daufur. Hér er annar háttur á að horfa á
steina í brekku.
Ég var stundum að hugsa: Gaman væri að vita, hvenær þessi steinn hef-
ur komið, hvaða ár, í hvaða mánuði og hvaða mánaðardag, hvaða dag í
viku, og hvort heldur á degi eða nóttu, yfir hvaða kennileiti sólina bar þá
eða sjöstjörnuna, hvaðan úr klettunum hann kom, hvort heyrðust miklir
skruðningar, þegar hann var að koma, hvort sást mikill reykur eftir hann
uppi í klettunum, þegar hann var að hoppa niður, hvort sáust djúp för
eftir hann í brekkunum, og hvernig veðrið var, hvaða fólk var þá á Hala,
19 Guðmundur Finnbogason, Lýðmenntun, Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla íslands, Reykjavík
1994, bls. 35.