Tímarit Máls og menningar - 01.04.1946, Side 48
38
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
hann frið við kínversku kommúnistana, gerði bandalag við þá, og
hófst þá á nýjan leik styrjöld milli Kína og Japan, sem geisaði í 8
ár. Þegar svo heimsstyrjöldin hófst, gerði Sjang Kai Sjek bandalag
við vesturveldin og Rússland. Sjang Kai Sjek átti lengi við ramman
reip að draga. Japanar höfðu á tímabili helming landsins á valdi
sínu, og nokkur hluti Kínverja, einkum stórjarðaeigendur í Norður-
kína, börðust með vopn í hönd með Japönum. En nú hafa Japanar
verið gersigraðir og hraktir burt úr landinu. Meira að segja Man-
sjúría er aftur orðið kínverskt land. En framtíð Kínverja er þó
mjög á huldu. Kína er land mikilla mótsetninga, þar er mikill auður
og mikil örbirgð. Meginhluti Kinverja eru friðsamir akuryrkju-
menn, smábændur, sem strita frá morgni til kvölds. Margir þeirra
eru leiguliðar, sem verða að láta allt, sem þeir geta við sig losað,
til landherranna. Hinn kínverski landaðall er að vísu ekki auðugur
í vestrænum skilningi, hann skortir fjármagn. En hann hefur þó
landeignir sínar og fornt álit að verja, og gerir það með kjafti og
klóm. En í Kína er voldug bændahreyfing, sem vill afnema land-
skuldir og leiguliðakjör. Hin fjölmenna sjálfseignabændastétt í
Suðurkína er þó tæplega áköf með í þessari hreyfingu, hún hefur
svo lengi búið að sínu. í borgum landsins er stéttaskipting mjög
djúp. Þar er mikið af láglaunuðum sveltandi öreigalýð. Þar er fá-
menn millistétt smákaupmanna og handverksmanna. Og þar er auð-
ug yfirstétt borgaralegra iðnrekenda, bankaeigenda og stórkaup-
manna. Meðal þessa fólks á Sjang Kai Sjek sína tryggustu fylgis-
menn. Drottinn þekkir sína, segir gamalt máltæki.
En Sjang Kai Sjek er ekki aðeins auðmaður, atvinnurekandi, mar-
skálkur og ríkisstjóri í Kína, hann er líka stórjarðaeigandi. Enda
þótt hann sé fulltrúi kínversku borgarastéttarinnar, þá er hann ýms-
um böndum bundinn landaðlinum, þeirri stétt, sem kommúnistarnir
kínversku berjast mest á móti. Það hefur aldrei gróið um heilt milli
Kúómíntang og kommúnista.
Það þarf ekki mikið til að ýfa upp gömul og sollin sár. Kína ligg-
ur í rústum eftir allar þær styrjaldir, sem yfir það hafa gengið
undanfarna áratugi. Margar af borgum þess hafa verið lagðar í
rústir. Stór svæði, sem áður hafa verið blómleg, eru nú í auðn.