Tímarit Máls og menningar - 01.03.1977, Blaðsíða 105
Nýliðinn Svejk
til hans í fangelsið. Þrátt fyrir heiftúðuga mótstöðu var hann ólaður niður
á börurnar og farið með hann á herbúðaspítalann. Alla leiðina mátti heyra
úr börunum svofelldan ættjarðarsöng:
„Hermenn, komið og hjálpið mér, ég vil þjóna hans tign, keisaranum.“
Hann var færður á gjörgæsludeild þar sem Jansa yfirlæknir leit á hann:
„Svejk, þú ert með lifrarþembu og feitt hjarta. Ja, langt ertu leiddur.
Það verður undireins að leysa þig frá herþjónustu.“
„Ég biðst afsökunar í undirgefni,“ svaraði Svejk, „en ég er hraustur eins
og fíll. Og hvað ætti, tilkynni ég í undirgefni, svo sem herinn að taka til
bragðs án mín? Ég biðst afsökunar í undirgefni, ég ætla í herflokkinn minn
aftur og mun þjóna hans tign, keisaranum, trúr og dyggur hér eftir sem
hingað til eins og góðum hermanni sómir og skyldan býður.“
Þá var gefin skipun um stólpípu og þegar Botschkowskij sjúkraliði gaf
honum stólpípuna þá mælti hann í þessari niðurlægjandi stellingu og var
reiður:
„Bróðir, ekki ég! Fyrst ég ekki óttaðist Italina þá mun ég heldur ekki
óttast stólpípuna þína. Hermaður má ekki hræðast neitt. Hann á að þjóna.
Mundu það!“
Þá var farið með hann fram. A kamrinum stóð yfir honum hermaður
með hlaðna byssu.
Það var farið með hann upp aftur í rúmið. Hjúkrunarmaðurinn Bot-
schkowskij stjanaði við hann og snökti:
„Æ, átm foreldra, væni?“
„Það á ég.“
„Héðan kemstu ekki lifandi, skrópagemlingur."
Fyrir þessi orð sló Svejk góðidáti hann utanundir.
„Ha, ég skrópagemlingur? Ég er stálhraustur og ætla mér að þjóna hans
tign, keisaranum, alveg til síðasta andvarps."
Hann var lagður í ís. I þrjá daga lá hann í ísumbúðum. Þá kom yfir-
læknirinn og sagði:
„Jæja, Svejk, nú ferðu úr hernum og beint heim, ha?“
„Ég bið forláts í undirgefni,“ svaraði Svejk þá, „ég er enn stálsleginn
og ætla að þjóna áfram.“
Hann var aftur lagður í ís. Tveim dögum seinna átti allsherjaryfirhaln-
ingarnefndin að koma saman til þess að gefa úrskurð um getuleysi hans til
herþjónustu.
91