Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Page 16
Tímarit Máls og menningar
Ég mun í þessum orðum freista þess að draga fram nokkra þætti í hug-
myndum Gunnars Gunnarssonar eins og þeir birtast í ýmsum ritgerðum
hans og greinum svo og afskiptum hans af menningarmálum og stjórnmál-
um milli 1920 og 40. Hef ég þá einnig í sjónmáli nokkrar meginlínur í höf-
undarverki hans sem sagnaskálds.
Þegar skáldverk hans og ritgerðir eru þannig lesin saman kemur í ljós
hugmyndaleg samfella sem í sjálfu sér þarf ekki að koma á óvart.
Haustið 1909 settist Gunnar að í Arósum tvítugur að aldri og eftir það
starfaði hann eingöngu að ritstörfum og skáldskap í Danmörku í rétta þrjá
áratugi.
Svo merkilega vill til að þessum þrjátíu árum má skipta í þrjú nokkurn
veginn jafnlöng skeið eftir meginhugmyndum og viðfangsefnum. Það verða
ákveðin skil kringum 1920 og 1930 og kem ég nánar að því á eftir.
Áður en Gunnar slægi tjöldum sínum til eins vetrar dvalar í Arósum
hafði hann dvalist tvö ár í Danmörku, en þangað fór hann haustið 1907 til
náms á lýðháskólanum í Askov þar sem hann var tvo vetur.
Þessi lýðháskóladvöl varð Gunnari örlagarík og mótandi.
Fyrir rithöfundarlegt uppeldi hans var það mikilvægast að þarna fékk
hann undirstöðu í erlendum tungumálum og þó enn frekar að hann átti
frjálsan aðgang að góðu safni fagurbókmennta sem hann svalg í sig.
En varðandi hugmyndir hans og viðhorf á þeim tveimur áratugum, sem
hér verða einkum umræðuefni, 1920-40, er tvennt mikilvægast:
Hvað var lýðháskólinn í Askov?
Hann var elsti og nafntogaðasti lýðháskóli á Norðurlöndum. Ég ætla hér
ekki að ræða um hugsjónir lýðháskólahreyfingarinnar, en minni þó á rætur
hennar í bjartsýnni heittrúar- og rétttrúnaðarstefnu Grundtvigs.
Nú kom Gunnar úr trúaðri fjölskyldu, þar sem skiptust á prestar og
góðir bændur, og föðurbróðir hans, séra Sigurður Gunnarsson, hafði mikil
áhrif á hann ekki síður en séra Sigbergur á bróðurson sinn Ugga í Kirkj-
unni á fjallinu.
I Askov snerist Gunnar gegn hinum glaðværa lútherska rétttrúnaði er
orkaði á hann sem smeðjulegur og hræsnisfullur. Sú uppreisn gegn áhrifum
fjölskyldu og skóla dró á eftir sér langan slóða í verkum hans í hinni djúpu,
trúarlegu dulúð og hinni sáru trúarlegu sektarkennd sem einkennir mörg
verka hans.
Það var þó annað tvennt, sem ég ætlaði að benda á.
Lýðháskólinn í Askov hafði verið stofnaður 1844 í Rodding á Suður-
Jótlandi. Tuttugu árum síðar, 1864, lögðu Prússar undir sig hertogadæmin
406