Tímarit Máls og menningar - 01.12.1988, Síða 23
Gegn straumi aldar
Þeir þrír þættir í opinberum hugmyndafræðilegum afskiptum Gunnars,
sem enn eru ónefndir, voru raunar innbyrðis tengdir.
Víkjum fyrst að skandínavismanum.
Sú hefur verið raunin á þessari öld að í kjölfar heimsstyrjaldanna beggja
hefur siglt stóraukinn áhugi á norrænni samvinnu. Norrænu félögin voru
stofnuð 1919 og upp úr síðari heimsstyrjöldinni hófst sú stjórnmálasam-
vinna sem tengist Norðurlandaráði og starfsemi þess.
En Gunnar hafði stærri áform á prjónunum en fólust í vináttuböndum
Norrænu félaganna.
Það er 1925 sem hann gengur fram fyrir skjöldu með ræðu í Studenter-
samfundet í Kaupmannahöfn um sameiningu Norðurlanda í eitt ríki.
Eins og á 19. öldinni virðist þessi skandínavismi fyrst og fremst hafa ver-
ið bundinn við samtök stúdenta, og einkum sýnast norskir stúdentar hafa
verið brennandi í andanum. Fram um 1930 flytur Gunnar fyrirlestra og
ræður um þessa hugsjón sína í stúdentasamtökum á Norðurlöndunum
þremur, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Fyrir honum vakir beinlínis endurreisn Kalmarsambandsins, stofnun
eins norræns lýðveldis. Og hverjar eru forsendur hans?
Þær eru af tvennum toga: menningarlegar og pólitískar.
Norðurlandabúar (nema Finnar) eru af einum kynþætti, eiga sér sameig-
inlega menningu, eru í reynd ein þjóð, miklu fremur en t.a.m. Bandaríkja-
menn. Pólitískt ástand Evrópu krefst þess að Norðurlönd sameinist gegn
ásælni stórþjóða álfunnar. Strax í upphafi þessarar baráttu sinnar talar
Gunnar um friðarsamningana í Versölum sem svikahlé, lokauppgjör stór-
velda álfunnar hljóti að vera skammt undan. Og þar reyndist hann sann-
spár. Hann telur að þessi sameining megi ekki dragast, nú sé tækifærið
meðan stórveldin séu enn í sárum eftir heimsstyrjöldina.
Nokkra sérstöðu hefur ræða, sem Gunnar flutti í Lundi í Svíþjóð 4. des.
1926, er menn minntust þess að 250 ár voru liðin frá orrustunni við Lund.
Þessa ræðu flutti hann á vegum stúdentafélaganna Clarté og Den yngre
gubben sem voru marxísk og sósíaldemókratísk.
Tage Erlander, síðar forsætisráðherra Svía um langan tíma, var meðal
áhrifamanna í síðar nefnda félaginu, og hann skýrir frá því í endurminning-
um sínum að þegar stofnað var af þessu tilefni til hátíðarguðþjónustu í
Lundardómkirkju með konung landsins og hershöfðingja í broddi fylking-
ar til að minnast þeirra Svía, er féllu við Lund 1676, var tilgangurinn sá að
vekja þjóðarstemningu fyrir aukinni hervæðingu og vígbúnaði.
Þá gengust þessi róttæku stúdentafélög fyrir andhátíð í Lundi þar sem
áhersla var lögð á frið og bræðrabönd meðal norrænna manna. Fengu þau
413