Tímarit Máls og menningar - 01.06.1992, Page 35
Svo er það sunnudag einn í sláttarbyrjun að hópur reiðmanna sést
þyrla upp ryki á troðningum þeim sem liggja út úr þorpinu; það er
skafheiður himinn og svalt í lofti. Þetta er glæst reið með viðeigandi
hófaskellum, og fremstan íflokki má greina Kolbeinsen kaupmann á Jarp
sínum; við hlið hans ríður maddama Kolbeinsen á bleikum. Síðan koma
fjórir búðarþjónar, þá Páll sýslumaður og frú, sýsluskrifarinn, sóknar-
presturinn og þrjár vinnustúlkur. Seinust í hópnum koma svo Henningsen
apótekari á þeim brúna og Kolfinna á Perlu. Ferðinni er heitið upp í
Amtmannsbrekkur eða út í Hólaskóg, eða eitthvað enn annað. En hvert
svo sem leiðin liggur, þá er fólkið einhuga um að skemmta sér vel. Það
er glatt í bragði og hnakktöskurnar úttroðnar af alls kyns góðgæti, ásamt
brennivíni á flöskum og fleygum.
Það gat orðið sukksamt í svona ferðum, því höfðinginn staupar sig,
rétt eins og barnunginn sýgur móður sína. Embættismenn sem ekki
skvettu duglega í sig, þóttu þessvegna hálfgerðir furðufuglar. Henn-
ingsen apótekari var hér óræð stærð; hann lyfti glasi rétt eins og hver
annar, en aldrei höfðu menn þó séð á honum vín.
En hér fór allt vel fram, og þó að búðarþjónamir hefðu þurft að hjálpa
sýslumanni og sóknarpresti á bak, komust allir klakklaust til síns heima.
Flokkurinn var aftur á ferðinni sunnudaginn næsta, og síðan á hverri
helgi fram eftír sumri. Það var sagt að sumt af unga fólkinu í hópnum
væri að draga sig saman, og hvað Henningsen og Kolfinnu varðaði, þá
var almannarómur þegar búinn að trúlofa þau, og menn biðu þess að lýst
yrði með þeim í kirkjunni.
En einn sunnudaginn vantar Kolfinnu í hópinn, og ekki að orðlengja
það; hún sést ekki ríða út oftar á þessu sumri.
Hvað hafði nú gerst? Og þorpið varð allt að augum og eyrum. Það lá
beinast við að athuga Henningsen, því hann var alltaf til sýnis, ef svo
mætti segja, í apóteki sínu. Að vísu var hann oft á bak við, en stundum
stóð hann við diskinn og spjallaði við þá sem í búðina komu, einkum
bændur. Hann talaði sérkennilegt og hljómmikið tungumál; heilsaði
Brandi hreppstjóra til að mynda með því að segja — Góðan dagin
Gúðbranda mín —
Af látbragði hans varð ekki mikið ráðið um ástandið í einkalífinu.
Hann var brosmildur maður og ljúfur, sem virtist sjaldan skipta skapi. Þó
átti hann það til að vera svolítið snöggur upp á lagið þegar bændur voru
TMM 1992:2
33
L