Gripla - 20.12.2007, Blaðsíða 78
GRIPLA76
Á 17. öld hefur einhver lesið þar það, sem hann gat, og skrifað það
ofan í hið eldra … Afrit þetta þarf ekki að vera neitt afbakað, svo langt
sem það nær, en síðan í A hefur náð lengra. 18
Textinn á þessari síðu er u.þ.b. 210 orð en á hana hefðu komist um 400 orð,
e.t.v. nokkru fleiri.19 Líklegt er að hér sé um útdrátt að ræða en ekki er ljóst úr
hve löngum texta dregið hefur verið saman.
Þessar viðbætur á uppsköfnu síðunum eru frá 17. öld. Ekki er ljóst af hverju
blöðin hafa verið skafin en sennilega hafa kverin losnað úr bandinu, því að það
eru útsíður kvera sem hafa fengið þessa illu meðferð. Ef kverin hafa verið laus
úr bandinu hafa þau getað legið hér og þar og verður að teljast eðlilegt að
útsíðurnar hafi getað máðst. Það er því líklegt að útsíðurnar hafi verið orðnar
mjög máðar og jafnvel ólæsilegar þegar það sem sást af skrift var skafið út. Þó
hafa ekki útsíður allra kvera orðið fyrir þessum skakkaföllum, t.d. útsíður
fremsta kversins. 9r er útsíða kvers, en mótpart hennar í tvinni vantar þar sem
það vantar blað sem á að vera á eftir 15. blaði.20 16r og 23v eru útsíður kvers,
24r og 31v eru útsíður og 32r og 37v eru útsíður. Taflan hér á eftir og með-
fylgjandi myndir skýra ástand handritsins betur:
1. kver 8 bl. (16 bls.): 1r–8v
2. kver 7 bl. (14 bls.): 9r–15v, 1. bls. skafin, en aftasta blaðið vantar sem
var 16. bl. (aftasta bls. hefur e.t.v. líka verið skafin)
3. kver 8 bl. (16 bls.): 16r–23v, 1. og 16. bls. skafin
4. kver 8 bl. (16 bls.): 24r–31v, 1. og 16. bls. skafin
5. kver 6 bl. (12 bls.): 32r–37v, 1. og 12. bls. skafin
6. kver 4 bl. (8 bls.): 38r–41v, vantar a.m.k. fremsta og aftasta blaðið í
kverið svo að ekki verður vitað hvort útsíður kversins voru skafnar.
18 Í samræmi við þessa skoðun prentar Björn þennan texta sem hluta af meginmáli (ÍF10:36–
39) og því fordæmi fylgja Guðni Jónsson (Ísl. 1947:105–06), Grímur M. Helgason og Vé-
steinn Ólason (Ísl. 1971:200) og Theodore M. Andersson og William Ian Miller (1989:251–
252) án þess að merkja póstinn sérstaklega, og útgefendur Svarts á hvítu (Ísl. 1986:1725–
26). Þorgeir Guðmundsson og Þorsteinn Helgason telja að hér sé um útdrátt að ræða sem nái
yfir alla eyðuna aftur að núverandi bl. 38v en gefa hann ekki út (Ísl. 1830:49). Guðmundur
Þorláksson gaf þennan texta út með viðbætinum sem hann prentaði úr þessu handriti, reyndar
með breyttu letri (Ljósv. 1880:265–66). Hið sama gera Valdimar Ásmundarson (Ljósv. 1896:
133) og Benedikt Sveinsson (Ljósv. 1921:130–31), en Benedikt telur að eyðufyllara hafi tek-
ist ófimlega upp (Ljósv. 1921:iv).
19 Ef aðeins vantar eitt blað aftan við uppsköfnu síðuna á 37v vantar um 1200 orð eða fleiri á
þessum stað, en textinn er, eins og áður segir, aðeins um 210 orð.
20 Rétt er að geta þess að hver tvö blöð í handriti eru venjulega samhangandi og mynda tvinn.
Fjórum tvinnum er svo raðað saman í kver sem er þá 8 blöð, þ.e. 16 bls. — stundum eru 6
blöð í kveri, stundum 10 og einstaka sinnum fleiri. Einnig kom fyrir að í kveri væri stakt blað,
þannig að fjöldi blaða í kveri gat verið 5, 7 eða 9.