Gripla - 20.12.2007, Blaðsíða 180
GRIPLA
IV
Ég vík þá að trúarljóðum Hallgríms og íhugunarritum hans. Doktorsefni
bendir á að það er oft ekki auðvelt að greina á milli trúarlegs og veraldlegs í
kveðskap Hallgríms og gefur skemmtilegt dæmi um það á bls. 52 af Leirkarls-
vísum Hallgríms. Í þeim er afar hversdagslegt atriði úr daglega lífinu, bolli,
kannske brotinn bolli, tilefni til trúarlegra íhugana eða, ef menn vilja það held-
ur, heimspekilegra vangaveltna! Maðurinn á þau örlög sameiginleg með öllu
sköpuðu að ganga veg til dauða. En maðurinn á sér von um að verða aftur heill
– og þá von tjáir fagnaðarerindið.
Sama gildir um önnur andleg ljóð Hallgríms, hverfulleikakvæðin og
heimsendalýsingar (sbr. 10. kafla), ádeilukvæðin (sbr. 11. kafla), tækifæris-
kvæðin (12. kafli), sálma og andlega söngva (13. kafli), iðrunar- og huggunar-
kvæði (14. kafli) og hámark andlegra ljóða hans sem eru Passíusálmarnir (15.
kafli). Sama sýn birtist í því efni sem til er frá Hallgríms hendi í óbundnu máli
og eru íhugunarritin annars vegar og burtfararminning Árna Oddssonar hins
vegar (16. og 17. kafli). Trúarlegar og veraldlegar víddir kallast á og erfitt að
gera grein fyrir skilunum á milli.
Doktorsefni rekur helstu kvæði og sálma Hallgríms og gerir grein fyrir
efni þeirra á skýran og skilmerkilegan hátt. Í því sambandi langar mig þó til að
gera athugasemd viðvíkjandi því sem segir á bls. 312, að aðeins einn hugg-
unarsálmur Hallgríms sé ortur af tilefni sem enn er kunnugt og það er sálm-
urinn sem hann orti eftir að bærinn í Saurbæ brann árið 1662. Er ekki þakkar-
gjörð fyrir aftur fengna heilsu í raun huggunarsálmur og þá líka ortur af
ákveðnu, þekktu tilefni? Þó að yfirskriftin sé þakklæti geymir hann ekki mörg
þau stef sem huggunarsálmarnir annars geyma? Sjálfshuggun eða sjálfssál-
gæsla var mönnum líka hugleikið efni á barokktímanum eins og birtist t.d. í
ritum Johanns Gerhards.
Þá langar mig líka til að gera athugasemd við það sem segir á bls. 311
o. áfr. um notkun Hallgríms á brúðkaupsmyndinni. Þar segir að í þeim sálmi
sem um ræðir Þú, kristin sála, þjáð og mædd sé huggunarorðunum beint til
konu m.a. vegna myndlíkingarinnar um brúðkaup sálarinnar og Krists. Snertir
sú líking einvörðungu konur? Hvað með notkun Hallgríms á þeirri mynd eða
líkingu í öðrum sálmum? Hvað eigum við að gera með andlátssálma hans og
myndmálið í þeim?
178