Gripla - 20.12.2007, Blaðsíða 191
ANDMÆLARÆÐUR
að nægilegt sé að rökstyðja þá hugmynd með myndlíkingunni um brúðkaup
sálarinnar og Krists. Hann spyr: „Snertir sú líking einvörðungu konur? Hvað
með notkun Hallgríms á þeirri mynd eða líkingu í öðrum sálmum? Hvað
eigum við að gera með andlátssálma hans og myndmálið í þeim?“ Því er til að
svara að túlkun mín á sálminum byggist ekki einvörðungu á samlíkingunni um
brúðkaup sálarinnar og Krists heldur fremur á orðalaginu öllu og þeim dæm-
um sem tekin eru. Sálmaskáldið vísar í ritningartexta sem tengjast sérstaklega
kvenlegri reynslu, t.d. „Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu, að hún
miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?“ (Jes. 49,15) og fjallar sérstaklega um Maríu,
móður Jesú og sorg hennar. Sú staðreynd að orðið sál er kvenkyns á íslensku
ýtir enn frekar undir þá tilfinningu að sálmurinn sé ortur til konu. Í andláts-
sálmum Hallgríms (sjá Hallgrímur Pétursson 2000:92, 94 og víðar) eru, eins
og andmælandi bendir réttilega á, mjög merkar samlíkingar sem vísa margar
til kvenlegrar reynslu (ljósmóðir, barn á brjósti, fæðing, elskhugi og brúð-
kaup). Þær eru vel þekktar í kristinni dulúð þar sem lögð er áhersla á hið
líkamlega og innilega. Það breytir engu um þá tilgátu mína að áðurnefndur
sálmur kunni upphaflega að hafa verið ætlaður syrgjandi konu. Öll þessi dæmi
vitna um þekkingu á kristinni dulúð (og sennilega dulúðarritum) en einnig um
skáldlegt innsæi og tilfinningalega dýpt Hallgríms Péturssonar sem skýrir m.a.
vinsældir hans sem skálds.
Þá varpar andmælandi fram ýmsum athyglisverðum spurningum sem best
væri að geta svarað með ítarlegri rannsóknum og fræðilegum greinaskrifum,
m.a. um tár skáldsins í Passíusálmunum, hvort það séu tár meðlíðunar og
sorgar eða iðrunartár.
Andmælandi spyr um áhrif píetismans og um muninn á kveðskap
Hallgríms og dönsku skáldanna Kingos og Naurs; hvort Hallgrímur sé fulltrúi
snemmbarokks, mótaður af guðfræðistefnu rétttrúnaðar en Kingo og Naur
hins vegar af heittrúarstefnu, píetisma sem skýrt geti muninn á kveðskap
þeirra. Því er fyrst til að svara að ég valdi í ritgerðinni að einbeita mér að
kenningum um „barokktextann“ og þótt ég léti skýrt koma fram að ég lít á
barokk sem ákveðið tímabil í bókmenntasögunni kom ég mér þannig að vissu
leyti undan því að njörva barokk niður við ákveðin ártöl eða aldir, m.a. vegna
þess að ég taldi að til þess þyrfti rannsóknin að ná til fleiri skálda. Á hinn
bóginn get ég vel svarað því að ég tel of snemmt að tala um píetisma í verkum
Kingos og Naurs. Ég tel þá mótaða af hábarokki en að Hallgrím megi frekar
tengja við snemmbarokk og leyfi mér að vitna hér til lærimeistara míns,
Wilhelms Friese:
189