Gripla - 20.12.2007, Blaðsíða 141
AKRABÓK 139
Kvæðið er enn svo vinsælt að tónlistarmenn gáfu það út á diski 1993 og 1998,
en niðurstaða Björns Karels hefur þó ekki orðið til þess að menn hafi hætt að
telja Árna Böðvarsson höfund. Er þetta eitt af of mörgum dæmum um að störf
fræðimanna verða um of eintal, sem nær of oft til of fárra.
Verður nú hér getið stuttlega helsta kveðskapar Árna Böðvarssonar. Eftir
Árna liggur mikið af andlegum kveðskap, en af þeim kveðskap er aðeins Lilju-
stælingin Skjöldur prentaður í Hrappsey 1783 aftan við kvæði Jóns Þorláks-
sonar.
Nokkuð er til af tækifæriskvæðum, minningarljóðum og brúðkaupskvæð-
um eftir Árna. Form brúðkaupskvæða notaði Árni einnig í níðkvæðum, sem
hann orti nokkuð af, en meðal annarra varð Halldór Brynjólfsson Hólabiskup
(s. xlviii): „harkalega fyrir barðinu á Árna Böðvarssyni.“ Mikil kvæðadeila (s.
li): „reis af synjunareiði Jóns sýslumanns Árnasonar fyrir barn, sem honum var
kennt.“ Var af þeim sökum ort gegn sýslumanni kvæðið Greifaríma og leyndi
höfundur hennar nafni sínu. Árni var mikill vinur sýslumanns og orti langt
kvæði gegn Greifarímu, sem hann nefndi Arinseld og hljóðar svo 23. erindið
(s. lviii):
Kem eg þar varla orðum að
anza fanti slíkum,
sem þá skömm úr kjafti kvað,
kauða Vítis líkum.
Ekki hafa stóru orðin verið spöruð og Árni gat verið stórorður við fleiri. Gísli
Konráðsson sagði, að hann hefði kveðið við aðra hvora konu sínu þessa vísu
(s. lxxi):
Eins og fjandinn alstaðar,
ullin slæðist niður,
flækir band og fordjarfar,
fáðu hl ... í nasirnar.14
14 Því er vísunnar getið hér að seinna hlutann: „flækir band og fordjarfar, fær svo hland í
nasirnar“, lærði ég í æsku, en ekki fylgdi nein saga, hvað þá að getið væri höfundar. Aldrei
heyrði ég fyrra hluta vísunnar. Böðvar Guðmundsson kunni þessa vísu alla og hljóðar hún þá
svo:
Eins og fjandinn alls staðar
útsendur að skemma.
Flækir band og fordjarfar,
fær svo hland í nasirnar.
Af þessu er hægt að draga þá ályktun, að vísan hafi verið þekkt, a. m. k. seinni parturinn, sem
er betri hluti hennar. Hér er dæmi um hve vísupartar geta lifað lengi sjálfstæðir.