Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2012, Qupperneq 164
164
Menn ganga gagnrýnislaust út frá þeirri tilgátu að á grundvelli rann-
sókna á hvatalífi og ögunarháttum manna á tilteknu þjóðfélagslegu
þróunarskeiði – manna í okkar eigin þjóðfélagi, eins og við getum
kannað þá hér og nú – sé hægt að setja fram kenningar um hvatalíf og
ögunarhætti mannsins almennt, um menn í öllum þjóðfélögum.7
Í orðum Elias má greina ákall eftir „sögulegri sálgreiningu“,8 þar sem leitast sé
við að kanna gangverk sálarlífsins sem sögulega og þjóðfélagslega smíð og
sjónum beint að félagslegri mótun jafnt vitundarinnar og dulvitundarinnar.
Þannig er skrifum Elias beint gegn hugmyndinni um einstaklinginn sem lok-
aða eða sjálfstæða heild, vegna þess að hann mótast stöðugt af þeim þjóð-
félagslegu ferlum sem hann er fanginn í. Einstaklingurinn er afurð þjóðfélags-
legra aðstæðna og hvatir hans eru bundnar breytingum á þessum ytri
skilyrðum eða „félagslegum habitus“.9 Það er í þessum skilningi sem Elias
kemst að þeirri niðurstöðu, í greiningu sinni á „umbreytingum árásargirninn-
ar“, að „[e]f miðstýrt vald styrkist í hinu eða þessu héraðinu, ef það tekst að
neyða fólk til að lifa saman í friði á stóru eða smáu svæði, þá breytist einnig
jafnt og þétt mótun kenndanna og viðmið hvatalífsins“.
Gagnrýnendur hafa bent á að í riti sínu sniðgangi Elias eitt af þremur lykil-
hugtökum Freuds; áhersla hans beinist að þaðinu og yfirsjálfinu en sjálfið
lendi utan greiningarinnar.10 Þetta má til sanns vegar færa, en hér er síður um
að ræða yfirsjón en meðvitaða fræðilega afstöðu. „Sjálfsögunin“ sem einkennir
nútímaþjóðfélagið er „af félagslegum toga“, eins og Elias bendir á, og verður
aðeins skýrð með hliðsjón af ytri breytingum þjóðfélagsgerðarinnar – sjálfið,
sem gegnir lykilhlutverki í kenningu Freuds, reynist þannig á endanum aðeins
vera innræting yfirsjálfsins og þeirra siðferðislegu gilda sem ríkja í samfé-
laginu. Í Über den Prozeß der Zivilisation rekur Elias þetta innrætingarferli með
hliðsjón af umbreytingum borðsiða. Þungamiðjan í ritinu eru lýsingar á sögu
hnífapara, snýtinga, skyrpinga og borðhalds, sem eru studdar með umfangs-
miklu safni dæma, sem flest eru sótt í handbækur um siðlega hegðun frá sext-
7 Sama rit, bls. 9.
8 Anna Green, Cultural History, New York: Palgrave Macmillan, 2008, bls. 43. Í þessu
tilliti bendir Green á aðferðafræðilegan skyldleika rits Elias við þekkt rit franska
sagnfræðingsins Luciens Febvre um vandamál trúleysis á sextándu öld, Le problème
de l’incroyance au XVIe siècle. La religion de Rabelais, París: Albin Michel, 1947.
9 Um hugtakið „félagslegur habitus“ í skrifum Elias og tengsl þess við kenningar
franska félagsfræðingsins Pierres Bourdieu, sjá nánar hjá Ute Daniel, Kompendium
Kulturgeschichte. Theorien, Praxis, Schlüsselwörter, bls. 261–265.
10 Sjá Gerd Schwerhoff, „Zivilisationsprozeß und Geschichtswissenschaft. Norbert
Elias’ Forschungsparadigma in historischer Sicht“, Historische Zeitschrift 3/1998,
bls. 561–605, hér bls. 598.
NoRBeRt eliAS