Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 78
76
Jón Jóhannesson
Skírnir
hins rauSsenzka að Gunnbjarnarskerjum. Sökum fyrir-
sagnanna mætti ætla, að þeir væru skrifaðir beint upp úr
Landnámabók, en svo er ekki, heldur eru þeir ritaðir eftir
minni. Það sést bæði af málinu, sem er 17. aldar mál, og
efninu, sem er mjög úr lagi fært og ágripskennt. Birni á
Skarðsá hefur ekki verið ljóst, að kaflarnir fjölluðu um
sömu ferð. Hann hefur því haft tvær heimildir fyrir sér,
munnlegar eða skriflegar, aðra eða báðar. Formáli ágrips-
ins er þá ekki heldur sönnun þess, að það sé ritað beint
upp úr reisubókinni. I orðunum „skrifað úr Reisubók
Bjarnar bónda Einarssonar" þarf ekki að felast önnur
merking en sú, að efnið sé frá henni runnið, þótt það sé
skrifað eftir minni. Ekki er heldur víst, að Björn á Skarðsá
hafi fyrstur fært ágripið í letur. Vel má vera, að hann
hafi fengið það með formálanum frá öðrum.
Við vandlegan lestur getur engum dulizt, að ágripið
ber ósvikin einkenni munnlegra frásagna. Tímatal vant-
ar. Hvorki eru ártöl né dagsetningar. Tímalengd milli
ferða eða atburða er aldrei tekin fram, jafnvel ekki dval-
artími Bjarnar bónda á Grænlandi, þótt gert virðist ráð
fyrir, að hann hafi verið einn vetur. Persónur eru ein-
ungis nefndar fjórar: Björn Jórsalafari, Ólöf, Ólafur Is-
firðingur og Einar fóstri. Nöfn feðra þeirra eru ekki
greind nema Bjarnar bónda. Vatnsfjarðar-Björn hefur
hann ekki verið kallaður fyrr en mjög seint, er greina
þurfti hann frá Birni Þorleifssyni hirðstjóra, dóttursyni
hans (SJcarðs-Birni, sbr. d). Viðurnefni Bjarnar Einars-
sonar, Jórsalafari, kemur fyrst fyrir í frásögnunum úr
reisubókinni og er úr þeim komið í yngri rit. Virðist það
því ekki gamalt. Enginn maður er nafngreindur á Græn-
landi, jafnvel ekki hinn nýlátni biskup eða presturinn,
sem gegndi biskupsstörfum. Staðanöfn eru eigi önnur en
þau, sem alkunn voru hér á landi á 17. öld, og staðhátta-
lýsingar engar. Hvergi er drepið á siglingaleiðir. Átta-
miðanir eru ekki aðrar en sú, að Gunnbjarnareyjar liggi
„undan fsafjarðarmynni til útnorðurs", og mun hún þó
ekki úr reisubókinni, eins og brátt verður sýnt fram á.