Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 172
Einar Ól. Sveinsson
Papar
i.
Einn einkennilegasti þátturinn í sögu íslands er sjálft
upphafið, hinir fyrstu byggjendur landsins, Paparnir.
Sjálfir eru þeir sem myrkva huldir, af þeim ganga svo til
engar frásagnir, aðeins skýr og fáorð vitni um tilveru
þeirra, og örnefni, sem um aldur og ævi halda áfram að
minna á þá. Sjálfir eru þeir í næsta litlum tengslum við
síðari sögu landsins. Og tilgangur þeirra með „byggingu"
landsins var einstakur og ólíkur því, sem tíðkast um aðra
menn. Norrænu landnámsmennirnir komu hingað til að
lifa hér og láta ætt sína lifa hér eftir sinn dag. Paparnir
komu hingað til að deyja, deyja heiminum, deyja í drottni.
Sá er þetta ritar var í sumar staddur á rústum, sem
nefndar eru Papatættur, út frá Papaósskaupstað. Það var
sem hinir undarlegu frumbyggjar sæktu að mér. Bæirnir
hurfu sjónum, eftir var mannlaust landið, með sínu mikla
víðsýni og hrikalegu f jöllum. Þetta var auðn að því leyti,
að það var óbyggt og einmanalegt og gætt geigvænlegri
tign, en þegar nær var litið, blöstu við auganu unaðslegir
grasflákar, grænir og Ijúfir. Unaður og auðn staðarins
blandaðist saman í huga manns.
Skapblær þessarar stuttu stundar, sem ég var þarna,
fylgdi mér aftur í borgarysinn og hefur orðið til þess, að
ég tók mig til að tína saman það, sem með sanni er vitað
um þessa frumbyggja landsins, svo og ýmsar frásagnir,
sem nokkru ljósi varpa á þá. Ég hef tekið þetta upp í
heilu líki og snúið á íslenzku því, sem á öðrum tungum er
skráð, svo að lesendur þurfi ekki að lifa í trú, heldur
skoðun.