Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 97
Skímir
Reisubók Bjarnar Jórsalafara
95
sem frá er sagt í ágripinu úr reisubókinni, en eigi er
minnzt á það í Nýja annál, sem er annars eina heimildixi
um Jórsalaförina. Hætt er því við, að málum sé blandað
í ágripinu, en margt gat gerzt á þessum slóðum, þar sem
allt logaði þá í ófriði og öryggi ferðamanna var lítið. Sol-
veig hélt til Noregs úr Feneyjum, en Björn vestur til Com-
postella og hafði þá efnt heit sitt. Þar lá hann sjúkur
hálfan mánuð, en fór síðan um Frankaríki og Flandur til
Canterbury í Englandi, eflaust í því skyni að sækja heim
gröf hins heilaga Tómasar Beckets, erkibiskups. Frá Eng-
landi hélt Björn til Noregs. Veturinn 1410—11 var hann
í Hjaltlandi og kom síðan út í Þerneyjarsundi 1411 eftir
sex ára brottveru. Er mjög líklegt, að hann hafi þá haft
út með sér helga dóma og helgra manna sögur, eins og
segir í reisubókarágripinu. Óvíst er, hvort Solveig, kona
hans, hefur komið með honum 1411 eða verið komin áður.
Björn hefur hlotið að vera stórauðugur maður, úr því
að hann gat eytt svo mörgum árum í ferðir erlendis. Hann
hefur verið haldinn pílagrímseðli. Um langt skeið fyrir,
um og eftir daga hans fara ekki neinar sögur af svo víð-
förlum Islendingi sem honum. Nærri má geta, að hann
hefur kunnað margt að segja frá ferðum sínum, og það
er alls ekki ósennilegt, að hann hafi ritað eða látið rita
bók um þær. Sjálfstæð sagnaritun var þá ekki enn þorrin
með öllu hér á landi, og hugsanlegt er, að Björn hafi
kynnzt erlendum ferðasögum, t. d. eftir Marco Polo. Björn
hafði nægan tíma til að semja eða láta semja slíka bók,
eftir að hann kom úr Jórsalaförinni 1411. Hann var enn
á lífi 1413 og varð þá umboðsmaður hirðstjóra (Árna
Ólafssonar, biskups í Skálholti) um allt Island. Síðari
tíma sagnfræðingar hafa talið, að Björn hafi andazt 1415,.
en það mun sprottið af tilgátu, en ekki öruggri heimild..
Þó er sennilegt, að þar skeiki ekki mörgum árum.