Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 140
138
Eyjólfur Guðmundsson
Skírnir
Samson, Elías spámann o. fl. — Allt að einu var eins og
amma þekkti hvern staf í orðunum; hún áminnti og lét
mig stafa upp aftur. Engum staf, þó að tvisvar væri sett-
ur, t. d. aa, mátti sleppa. Svo sagði hún mér fyrir um
beztu barnasögurnar í Nýjatestamentinu. Venjulegast,
þegar lestri mínum lauk og ekki var á mig kallað til ein-
hverra vika, raulaði amma, og ég tók undir:
Láttu Guðs hönd þig leiða hér,
lífsreglu halt þá beztu;
blessað orð hans, sem boðast þér,
í brjósti og hjarta festu.
Eftir öðrum atvikum að dæma hef ég verið á sjötta ári,
er ég eignaðist bók. Nafni minn Eyjólfur Bjarnason, nýi
bóndinn í Nykhól, gaf mér í afmælisgjöf Nýjatestamenti.
Þótti mér gjöfin góð, og systir mín Ingveldur fékk hana
síðar í brúðargjöf, og ennþá er þessi bók á heimili mínu
(1944).
Það var mitt yndi að sitja á kistli við rúmstokkinn hjá
ömmu og fylgjast með frásögn hennar. Stundum, þegar
eldri systkinin voru að hlusta á kvæði hennar og sögur,
varð mér að nægja að sitja á kopplokinu hennar; en það
var, eins og allt í herbergi hennar, fágað og hreint. Ekki
þótti mér eins vænt um ömmu og um mömmu mína. En
einhvern veginn leit ég ömmu sem æðri veru. Hún kunni
á öllu skil, vissi um allt og kunni ráð við öllu, og hún var
alltaf kyrr í herbergi sínu, hvernig sem á stóð og hvað
mikið annríki sem var. Alltaf var amma eins, og aldrei
önug né ergileg.
Um þetta leyti byrjaði séra Oddgeir á Felli að kenna
fermingarbörnum skrift og reikning. Fyrstu tildrög þeirr-
ar kennslu sá ég í Sólheimakirkju; norðan megin í kirkj-
unni var veggurinn settur krítuðum tölustöfum. Mér
fannst mikið koma til þess, þegar presturinn lét spurn-
ingabörnin kríta á kirkjuvegginn og setja sína tölustafi
meðal tölustafa hans á hinn helga þilvegg. Ekki fannst
ömmu mikið til þess koma, er ég sagði henni frá þessu.
Margt nýstárlegt bar fyrir augun í kirkjuferðunum.