Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 84
£2
Jón Jóhannesson
Skírnir
Einhvern tíma hafa svo borizt hingað sagnir með er-
lendum fiskimönnum eða landkönnuðum um fund eyja við
austurströnd Grænlands, líklega eyjanna austan við Ser-
milikfjörðinn. Þar hafa menn orðið varir við eskimóa og
e. t. v. haft einhvern beig af þeim fyrst í stað. Fróðum
íslendingum hefur þá flogið í hug, að þar væru hin fornu
Gunnbjarnarsker fundin, og hafa ímyndað sér, að eyj-
arnar væru nær Islandi, en fjær Grænlandi heldur en þær
voru í rauninni. En þá þurfti að skýra', hvers vegna Gunn-
björn kallaði eyjarnar sker. Skýring á því atriði er bæði
í Grænlandsannál Bjarnar á Skarðsá1) og riti Jóns lærða,
Um íslands aðskiljanlegar náttúrur (yngra en 1637). Þar
segir Jón, að Gunnbjarnareyjar einar séu byggðar af hin-
um fjarlægari eyjum kringum ísland og hafi ætíð verið,
síðan ísland var byggt. Síðan segir hann:
„Gunnbjörn, sonur Úlfs kráku, norskur maður, sem um
kring sigldi ísland eftir Garðar að forvitnast, hver lönd
næst myndi liggja Islandi, hann fann fyrstur þær eyj-
ar og þótti sem sker hjá Garðarshólma, hlaðnar fuglum,
grösum og gæðum nóglegum sjófanga. Um þær er of langt
að segja. Nú sagðist Mastur Juris tréfótur hollenzki2 3)
seinast þar hafa á land komið og séð tvær kirkjur. Þær
(þ. e. eyjarnar) skulu vera sex og allar forstórar. En hvort
engelskir og hollenzkir færa þangað kaupskap, er oss óvíst.
Þær liggja í útnorðurshafi undan ísafjarðardjúpi og Aðal-
víkur-rytabjargi, sem sú gamla vísa þar um hljóðar.“s)
Skýringin er alls ekki ósnjöll, að Gunnbjörn hafi kallað
eyjarnar sker, af því að ísland var kallað hólmi, og senni-
lega er hún jafngömul nafnbreytingunni Gunnbjarnar-
sker í Gunnbjarnareyjar. Úg efast um, að hægt sé að
benda á nokkurn mann líklegri en Jón lærða til þess að
vera höfund þessarar skýringar, og hefur Björn á Skarðsá
þá fengið hana frá honum. Þá er eigi síður merkilegt, að
1) Grönl. hist. Mindesm. I, 88.
2) Þ. e. Joris Carolus.
3) Islandica XV, 3.