Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 79
Skírnii'
Reisubók Bjarnar Jórsalafara
77
Björn á Skarðsá hefði vafalaust getið þess, ef hann hefði
fengið nokkra fræðslu úr reisubókinni um siglingaleiðir
til Grænlands eða staðháttalýsingar þar. Á dögum hans
var grafið upp allt, sem menn vissu í þeim efnum, sökum
vaxandi áhuga á að finna byggðir hinna fornu Grænlend-
inga.
Efni sumra frásagna ágripsins er ærið tortryggilegt
og með þjóðsagnablæ, t. d. ævintýrin í Jórsalaförinni og
Gunnbjarnareyjum. Orðin tröll og skessa benda í sömu
átt. Ef nokkuð er hæft í sögninni um tröllin, hljóta þau
að hafa verið eskimóar, en þeir hefðu verið kallaðir skræl-
ingjar í samtíðarheimild.
Varla þarf fleiri vitna við um það, að efni ágripsins
hefur gengið lengi í minni. Frásögnin hefur sljóvgazt og
fengið á sig þjóðsagnasvip. Sú skýring er auðvitað hugs-
anleg, að frásagnir reisubókarinnar hafi verið með ýms-
um munnmælaeinkennum, ef hún hefur verið frá 16. öld.
En margt bendir miklu fremur til þess, að ágripið sé
skrifað eftir minni.
Björn á Skarðsá virðist hafa gert sér far um að safna
öllu, sem hann náði í, um Grænland. Hann hefur t. d. tek-
ið Þorfinns sögu karlsefnis alla upp í annálinn, ágrip úr
öðrum ritum, oftast meira eða minna orðrétt, og ýmsar
sagnir frá samtíðarmönnum sínum. Það var í samræmi
við vinnubrögð hans að sleppa úr reisubókinni mestöllu
því efni, sem varðaði ekki Grænland. Hins vegar hefði
mátt búast við því, að hann hefði tekið kafla reisubókar-
innar um Grænlandshrakninginn orðréttan eða mjög lítið
styttan. En það hefur hann ekki gert. Ágripið getur ekki
verið nema örlítið brot úr bókinni (sbr. formála þess),
jafnvel þótt hún væri aðeins reisubókarkorn. Þetta atriði
bendir í þá átt, að Björn hafi ekki þekkt hana.
í ágripinu eru molar í mjög lausu samhengi við aðal-
þráðinn, t. d. sagnirnar um biskupinn í Görðum, prestinn,
er hélt biskupsstólinn, og Einar fóstra. Þeir molar bera
svip þess, að einhver hafi reynt að skrifa allt, sem hann
mundi, úr reisubókinni, en hafi ekki haft hana við höndina.