Skírnir - 01.01.1945, Blaðsíða 122
120
Lúkíanos
Skírnir
KARON. Vertu blessaður fyrir það, Sólon! að þú hefur
ekki gleymt okkur, heldur krefst þess, að dómurinn í þessu
máli sé fyrst upp kveðinn við sjálfa dánarferjuna. — En
hvaða menn eru það, sem Krösos sendir þarna, og hvað
bera þeir á herðunum?
HERMES. Það eru gulltiglar, sem hann gefur hinum
pýþverska Apolloni að helgigjöf í launa skyni fyrir goð-
svörin, sem bráðum verða honum til falls. Maðurinn hef-
ur semsé fjarska miklar mætur á spádómum.
KARON. Nú þetta er þá gullið, þetta bjarta, sem ljóm-
ann leggur af, þetta ígula, sem þó er rautt um leið. Oft
hef ég heyrt þess getið, en nú sé ég það í fyrsta sinn.
HERMES. Já, Karon, þetta er nú hnossið, sem kvæðið
er um gert og mest er barizt um.
KARON. Og sannarlega get ég þó ekki séð, hvað gott
er við það, nema ef vera skyldi það eina, að það þyngir þá
niður, sem bera það.
HERMES. Veiztu þá ekki, hversu margar styrjaldir
hljótast af því, hversu mörgum fyrirsátrum og ránsferð-
um, meineiðum og manndrápum og fangelsisnauðum það
kemur af stað, hversu langar siglingar og kaupferðir
menn takast á hendur, og hversu þungan þrældóm menn
leggja á sig fyrir þess sakir?
KARON. Fyrir að tarna, Hermes! sem er þó ekki svo
mjög frábrugðið koparnum, því koparinn þekki ég, þar
sem ég, eins og þú veizt, heimta einn obol í ferjutoll af
öllum þeim, sem sigla niður til undirheima.
HERMES. Já, að vísu, en af koparnum er mikið til, svo
að mennirnir sækjast ekki neitt sérlega eftir honum, en
af gullinu er lítið, og það grafa málmgraftarmennirnir
lengst neðan úr jörðunni. En að öðru leyti kemur þetta úr
jörðu eins og blýið og hinir aðrir málmar.
KARON. Mikil má vera heimska mannanna, eftir því
sem þér segist, að þeir skuli leggja svo mikla ást við jafn-
bleikan og þungan hlut.
SÓLON. Segðu mér, Krösos! heldurðu, að guðinn pýþ-
verski þurfi í rauninni þessara tigla með?