Skírnir - 01.04.1994, Page 19
SKÍRNIR
AÐ SYNGJA Á ÍSLENSKU
13
Víkjum nú aftur að bragröddunum fjórum sem nefndar voru
til sögunnar.6 Þær eru misstígar rétt eins og kennivíddir laglín-
unnar. Aherslur einnar ganga oft á skjön við áherslur hinna.
I braggreiningu verður vart hjá því komist að hlusta eftir öll-
um þeim röddum bragarins sem mynda sönginn, þótt afdrifarík-
astar séu jafnan þær sem hljóðið sjálft varða, eða sú hljóðfræði-
lega, og sú bragfræðilega. I sambúð þessara tveggja sæta helst tíð-
indum atburðir sem hér verða nefndir skriplur og steytur.
Skripla er þegar bragarhátturinn sem Ijóðið myndar gerir ráð
fyrir áherslu á tilteknum stað en eðlilegur framburður textans
leyfir hana ekki þar. Þá er eins og stigið sé niður fæti, en fóturinn
skripli:
sérhvert gleðibros í banni,
blasir næturauðnin við.
-Drottinn, þá er döprum manni
dýrsta gjöfin sólskim'd.
(Stefán frá Hvítadal, Vorsól)
Ef borið er við bragarháttinn ætti síðasta atkvæði síðustu línu
að bera áherslu þótt hún sé léttari en á því 1. og 5. Það væri hins
vegar afkáralegur framburður að segja „sólskin-ið“, með raun-
verulegri áherslu á ,,-ið“. Islenskan er meðal þeirra tungumála
sem verst þola að áherslum orðanna sé hnikað til eða að dregið sé
úr þeim. Við eðlilegan framburð textans myndast skripla á þessu
atkvæði.7
Andstæða skriplunnar, þegar braggrindin ber ekki áherslu en
textinn krefst hennar, verður hér nefnd steyta. Þar er eins og
6 Háttatal Snorra tekur jafnt til merkingar og setninga sem ríms og línulengdar í
skilgreiningu háttanna. Líklega hefði hann lítið gefið fyrir tal síðari tíma
fræðimanna um form og innihald, eða röklegu og tilfinningalegu hliðar skáld-
skaparins. I hans augum er allt form. Þannig var viðhorf manna til listsköpun-
ar heilt áður en skynklofinn alræmdi sprakk út. (Hér verður að nægja að vísa í
allt það sem ritað hefur verið um skynklofann (e. „dissociation of sensibility"),
en T.S. Eliot er þekktastur þeirra sem sjúkdóminn greindu.)
7 Þess ber að geta að áhrif misgengisins eru hér milduð af aðstæðum. „Sólskin-
ið“ rímar við forsetninguna „við“, en forsetningar geta naumast borið þungar
áherslur. Báðar -ið endingarnar eru því léttari en við gætum vænst og skriplan
lyftir endinum í átt að sólskininu.