Skírnir - 01.04.1994, Page 20
14
ATLI INGÓLFSSON
SKÍRNIR
fóturinn steyti við atkvæði sem annars ætti að stíga yfir. Eitt
glæsilegasta dæmi þessa í íslenskum ljóðum er upphaf Passíu-
sálmanna: „Upp, upp mín sál og allt mitt geð.“ Eðlilegast er að
líta á fyrsta bragliðinn sem réttan þrílið, en hann ætti að bera eitt
þungt atkvæði í upphafi, og síðan tvö létt (-uu). Þó er óhugsandi
að lesa annað upp-ið án áherslu. Miðatkvæði þríliðarins er því
steyta. Ljóðið hefst með tveimur þungum áherslum sem gefa
upphafinu kraft og reisn.
Annað dæmi um steytu í upphafi ljóðs má finna í Tvímenn-
ingi Einars Benediktssonar (eftir Ben Jonson): „Snót, drekktu á
mig augans skál,“. Forliðurinn (,,Snót“), sem vitaskuld á að vera
áherslulaus, fær hér áherslu og myndar steytu. Þvílíkt ávarp í
upphafi ljóðs getur falið í sér einlægan tón (þótt tungutakið geti
hér tæpast talist einlægt).
Steytur og skriplur mætti í raun finna í sambandi allra
bragradda. Nefna mætti það merkingarfræðilega skriplu þegar
stuðull hvílir á smáorði og það er ekki framburðurinn heldur
merking orðsins sem vinnur á móti áherslu:
Þúfur sínar sérhvor átti,
sem að eyjar voru þá.
(Sigurður Breiðfjörð, úr Númarímum)
eða:
heilsaðu einkum, ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, - í peysu.
(Jónas Hallgrímsson, Eg bið að heilsa)
Bæði dæmin eru úr kvæðum þar sem angurblíð minning eða
söknuður liggur að baki því sem sagt er. Misgengið getur gefið
kvæði viðkvæman og persónulegan tón. I seinna dæminu heyrum
við hvernig skáldið lækkar skyndilega og feimnislega róminn í
stað þess að halda óbreyttri og öruggri hrynjandi (t.d. „heilsaðu
einkum undurblítt frá mér“...!?).8
8 í báðum tilvikum styrkir þó setningaskipan stuðlasetningu því eftir stutta
þögn, sem komman merkir, fær framhaldið dálítinn þunga þótt hann sé frem-
ur sálrænn en raunverulegur.