Skírnir - 01.04.1994, Page 24
18
ATLI INGÓLFSSON
SKÍRNIR
er gagnlegt að á milli þeirra heyrist ein óstuðluð áhersla. Þannig
má hugsa sér að foreldri fornyrðislagsins verði til. Mynstrið sem
áherslur þess mynda, þung-þung-þyngri-létt, virðist manninum
svo eiginlegt að freistandi er að rekja það til sálrænnar fyrir-
myndar, eða „erkitýpu".
I tónlist spádómsþulunnar má því greina þrjár samstíga radd-
ir: ris framburðar, merkingar og bragar (ef hægt er að tala um
brag á þessu stigi) en drif þeirra er á merkingarsviðinu. Formið er
samvaxið raunverulegum áherslum. Til að við skynjum það verða
allar áherslur að heyrast og tónlistin er nánast hlutbundin, veltur
ekki á sálrænum víddum. Engin rytmísk formgrind er til óháð
spádómsorðunum.
III
Fornyrðislagið er stílfærsla eldri og frjálsari forma. Hugsum okk-
ur að spádómsþulan hafi orðið að eins konar minni, og í sama stíl
væru ort veraldleg kvæði þar sem reglan um merkingu ljóðstaf-
anna var ekki eins ströng. Smám saman fara menn að heyra
stuðlana einungis sem rytma og rytminn fer að gefa þeim þýð-
ingu, ekki einungis þeir honum. Það mætti telja togstreitu milli
merkingar og rytma að ljóðstafir falla nú oftast á nafnorð eða lýs-
ingarorð, sem eru veigameiri en önnur orð, en um leið finnum við
hvernig rytminn hneigist að reglulegri slögum, eins og til að auka
ítök sín. Þetta helgast þó einfaldlega af formfræðilegri nauðsyn,
því um leið og hreint rytmískt inntak stuðlanna eykst verður að
gefa þeim sterkari tónlistarlega merkingu. Rytminn verður að
vera skiljanlegur á eigin forsendum og ekki aðeins í ljósi merk-
ingarinnar, þótt enn sé inntak orðanna mikilvægur þáttur í
þessum rytma.
Það gildir um fornyrðislagið eins og aðra hætti að nafnið
merkir í raun safn forma. Fornyrðislagið hreint og klárt er ekki
til, heldur aðeins ólík afbrigði þess. Freistandi er að greina teg-
undir þess í tvo meginflokka: Eldri og yngri gerðir formsins.
Eldri gerðin væru þá kvæði þar sem línulengd virðist nokkuð
frjáls og getur verið frá þremur og upp í níu atkvæði. Tala at-
kvæðanna ein segir þó ekki allt, því þau voru mismunandi löng.