Skírnir - 01.04.1994, Page 38
32
ATLI INGÓLFSSON
SKÍRNIR
fengu í huga okkar keim tómleika eða skoplega upphafins skálda-
máls. Takist okkur að horfa fram hjá úrkynjaðri mynd kenning-
anna og skoða þær aðeins gegnum hugarheim og smekk miðald-
anna, einkum hinna gotnesku síðmiðalda, sjáum við raunveruleg-
an glæsileik þeirra.
4) Að lokum agnúast menn yfir hversu vitsmunalegt og til-
finningalaust formið er. Þetta er að sjálfsögðu ekki dómur um
listrænt gildi þessa skáldskapar og í raun ekki alvarleg aðfinnsla,
en hún helgast greinilega af skynklofanum. Formið er álíka vits-
munalegt og tilfinningalaust og t.d. Frúarkirkjan í París. En getur
það ekki snortið okkur „þrátt fyrir það“?!
Dróttkvæðið er „erfitt“ og „ónáttúrulegt“ form, en það er
einn af hátindum íslenskra bókmennta, og rís langtum hærra en
dæma mætti af máli margra fræðimanna.
V
Ég nefndi hér að ofan hvernig mætti hugsa sér að ljóðstafir hafi
orðið til af merkingarfræðilegum ástæðum. Vissara er að herða á
því að bragur er alltaf merkingarfræðilegt tæki. Samfarir hans og
tungunnar fæða af sér nýja merkingu sem býr hvorki í innihaldi
textans né í tónlist háttarins. Þau orð sem tengjast ljóðstöfum
mynda nýtt þríeitt orð; innrímið sameinar í einum hljómi orð
sem gætu virst óskyld; fastur rytmi í grunni bragarins dregur
fram ákveðin orð og ákvarðar þannig merkingarblæ setningarinn-
ar, og þannig mætti lengi telja.
Sambúð bragar og tungu er þó því aðeins frjósöm að annað
bæti nokkru við hitt. Pívorki tjóir að hátturinn sé tungunni of
samstígur né að hann gangi gegn henni. Annars vegar getur hátt-
urinn þá ekkert það sem ekki býr þegar í prósanum.31 Hins vegar,
31 Ég bendi á þann sannleika sem Tómas Guðmundsson orðar svo í inngangi
sínum að ritsafni Jónasar Hallgrímssonar og „sem mörgum skáldum, langt
fram yfir hans daga, hefur gengið erfiðlega að skilja“, að „allt, sem hægt er að
segja jafn-vel í bundnu máli og lausu, á samkvæmt eðli sínu fremur heima í
lausu máli, af því þar er hægt að segja það betur“ (Jónas Hallgrímsson, Rit-
safn. Helgafell 1971).