Skírnir - 01.04.1994, Page 55
SKÍRNIR
FORNFRÆÐI EGILS SÖGU
49
að hún „var allra kvenna vænst og vitrust og fjölkunnug mjög“
(94). Af frásögn Snorra í Haralds sögu hárfagra má ráða að hún
hafi numið galdra norður á Finnmörku „að Finnum tveim er hér
eru fróðastir á mörkinni“ (IF 1941, 135), enda virðist hún hafa
verið einkar vel að sér í slíkum vísindum, svo sem Njála og kon-
unga sögur gefa í skyn. Yfirleitt er fremur gætilega farið með fjöl-
kynngi í Eglu og þó grunar lesanda að Gunnhildur kunni að orka
meiru af kunnustu sinni en sagt er berum orðum. Sama morgun-
inn og Egill sleppur úr Atley, lætur Eiríkur fyrst rannsaka hana
og síðan er snúist að öðrum eyjum. „Það var um kveldið að tólf
menn reru til Sauðeyjar að leita Egils [einmitt þar sem hann er í
felum] en þó voru margar eyjar n<er“ (112). Ekki þarf ýkja mikla
snilld til að láta sér detta í hug að þarna sé leitað undir leiðsögn
Gunnhildar; fjölkunnugar konur hafa löngum verið furðu naskar
að finna það sem hulið er öðru fólki. Þeim Þórdísi á Löngunesi
og Grímu í Eiríksfirði hefði ekki orðið skotaskuld úr að finna
Egil, ef ratvísi þessara grænlensku kvenna er rétt lýst í Fóstbrœðra
sögu. Og þegar Þuríði galdranorn í Viðvík vantar rótartré í því
skyni að senda Gretti rúnakveðju út í Drangey, haltrar hún „fram
með sænum, svo sem henni væri vísað til,“ og þar blasir óheillatré
við kellu (ÍF 1936, 249). En með því að höfundi Eglu láðist að
geta um hvert Gunnhildur renndi göndum á þessu dægri, þá er
óþarfi að velta slíku fyrir sér.
seiður
„Svo er sagt að Gunnhildur lét efla seið ok lét það seiða að Egill
Skalla-Grímsson skyldi aldrei ró bíða á Islandi fyrr en hún sæi
hann“ (176). Víðar er þess getið að slíkur seiður væri gerður, svo
sem í Ynglinga sögu: „Drífa keypti að Huld seiðkonu að hún
skyldi síða'1 Vanlanda til Finnlands eða deyða hann öðrum kosti.
En er seiður var framinn var Vanlandi að Uppsölum. Þá gerði
hann fúsan að fara til Finnlands, en vinir hans og ráðamenn
12 Sögnin að síða var upphaflega sterk (seið, siðu í þátíð), en stundum veik (þát.
síddi). Önnur sögn í merkingunni að „fremja seið“ var að seiða (þát. seiddi).