Skírnir - 01.04.1994, Page 121
SKlRNIR „MUN KONUNGI EG ÞYKJA EKKI ORÐSNJALLUR'
115
burðum þannig að lesa megi úr þeim fleiri en eina merkingu. Til
að skilja þetta má skoða frásögnina af snilldarlegum rógburði
Hildiríðarsona um Þórólf Kveld-Ulfsson, sem hefur neitað bræðr-
unum um föðurarf þeirra (378-87). Rógurinn byggir ekki á því að
segja ósatt um athafnir Þórólfs, heldur fyrst og fremst á því að at-
höfnum hans er lýst á ákveðinn hátt og eru þannig gerðar tor-
tryggilegar í augum konungs. Sem snjallir túlkunarfræðingar vita
Hildiríðarsynir að Haraldur muni líklega trúa því að Þórólfur
vilji gerast konungur yfir Hálogalandi í hans stað. Jarðvegurinn
er undirbúinn snemma í sögunni þar sem segir:
Haraldur konungur var mjög gjörhugall, þá er hann hafði eignast þau
fylki er nýkomin voru í vald hans, um lenda menn og ríka bændur og
alla þá er honum var grunur á að nokkurrar uppreistar var af von, þá lét
hann hvern gera annaðhvort að gerast hans þjónustumenn eða fara af
landi á brott, en að þriðja kosti sæta afarkostum eða láta lífið, en sumir
voru hamlaðir að höndum eða fótum. (371)10
Haraldur var tortrygginn í garð lendra manna eins og Þórólfs,
sem líklegt var að hefðu burði til að rísa gegn valdi hans. Þar sem
Hildiríðarsynir vita að lesa megi fleiri en eina merkingu í sömu
athafnir, spilla þeir vináttu Þórólfs og konungs með því að túlka
gerðir hins fyrrnefnda þannig að konungur lesi úr þeim ógnun
gegn veldi sínu. Þeir kunna að greina á milli atburða og túlkunar
þeirra og nota þá kunnáttu sér til framdráttar.
Sams konar kunnáttu beitir höfundur Egils sögu í frásögn
sinni. Sumum athöfnum persóna hans er vísvitandi lýst þannig að
það megi túlka þær á fleiri en einn veg. Eitt markmið höfundar
virðist vera að blekkja lesendur, þar sem sú túlkun sem fyrst
kemur upp í hugann er sjaldnast sú rétta. Onnur merkingin kem-
ur í ljós ef hugað er að víðara samhengi, eða því sem ekki er sagt
berum orðum í sögunni en gefið sterklega í skyn. Þannig er sjálf
10 Þetta virðist nákvæm lýsing á þeim valkostum sem Þórólfur stendur frammi
fyrir eftir að Hildiríðarsynir hafa alið á tortryggni konungs. Hann neitar að
gerast aftur þjónustumaður konungs (bls. 385), og ætlar að fara af landi brott
(bls. 391) en fer ekki í tæka tíð og konungur býður honum þann afarkost að
mönnum hans verði refsað. Þórólfur kýs fremur að láta lífið.