Skírnir - 01.04.1994, Page 200
194
ANDRÉS SIGURÐSSON
SKÍRNIR
Fukuyama gagnrýnir hægrimenn fyrir að beita efnislegum
löghyggjuskýringum og líta nánast fram hjá hugmyndafræði og
menningu og álítur þá einblína á hagnaðarvonina sem skýringu á
mannlegri hegðun. Hann telur að takmarkanir efnislegra lög-
hyggjukenninga um efnahagsþróun leiði til þess að ýmis fyrir-
bæri sem eru í eðli sínu hugmyndafræðileg, eða hugsjónir, séu
rakin til efnislegra ástæðna. Gallar sósíalísks hagkerfis lágu í aug-
um uppi fyrir þrjátíu eða fjörtíu árum, segir hann, en ekki var
samt horfið frá miðstýringu í kommúnistaríkjunum fyrr en á ní-
unda áratugnum. Skýringin er sú, að hans áliti, að þá ákváðu for-
ystuhóparnir og leiðtogarnir að velja auð og áhættu mótmælenda
í stað fátæktar og öryggis katólskra, svo skírskotað sé til Webers.
Fukuyama telur að hvorki í Sovétríkjunum né Kína hafi efnisleg-
ar aðstæður gert þetta óhjákvæmilegt heldur hafi þetta verið af-
leiðing þess að ein hugmyndin vann sigur á annarri.
Aðalatriðið að mati Fukuyamas er ekki hvort kerfi Hegels sé
rétt heldur hvort það gæti varpað nýju ljósi á efnishyggjuskýring-
ar sem oft eru teknar góðar og gildar. Hann afneitar þó ekki áhrif-
um efnislegra þátta heldur vill hann sneiða hjá þeirri efnislegu
löghyggju að telja frjálst hagkerfi geta óhjákvæmilega af sér frjálst
stjórnmálakerfi. Ástæðan sé sú að bæði hagkerfi og stjórnmála-
kerfi eru grundvölluð á vitund sem fyrir er og gerir þau þannig
möguleg. „En vitundin sem gerir vöxt frjálshyggjunnar möguleg-
an virðist festast í sessi eins og vænta má við lok sögunnar ef hún
er tryggð með allsnægtum frjáls markaðshagkerfis nútímans.
Segja má að altæka, einsleita ríkið einkennist af frjálshyggjulýð-
ræði á stjórnmálasviðinu og af því að auðvelt er að komast yfir
myndbands- og hljómtæki á efnahagssviðinu" (bls. 8).
Fukuyama telur að ekki séu neinar grundvallarandstæður í
þjóðfélaginu sem einhver stjórnmála- og hagkerfi önnur en nú-
tímafrjálshyggja ráði fremur við. Á þessari öld hafi aðeins tvær
hugmyndafræðistefnur keppt við frjálshyggjuna, fasisminn og
kommúnisminn. Fasismanum hafi verið eytt sem hugmyndafræði
í síðari heimsstyrjöldinni og fasistahreyfingar sem kunna að
spretta upp geti ekki náð útbreiðslu. Kommúnisminn, með kenn-
inguna um grundvallarandstæður auðmagns og verkalýðs, hafi á
hinn bóginn verið mun skæðari keppinautur frjálshyggjunnar, en