Skírnir - 01.04.1994, Síða 263
SKÍRNIR
ÍSLENSK GALDRABÓK
257
vettvangi eru enn í augum margra manna einhvers megnugir og því er
leitað ásjár hjá þeim á laun. Þessi guðsdýrkun tengist gjarna ýmsum öðr-
um óleyfilegum þáttum trúarlífs og oft galdri sérstaklega. Eftir trúar-
skipti lifa eldri trúarbrögð þannig víða í einhverri mynd sem galdur.
Kirkjan snerist snemma gegn þeim leifum eldri trúarbragða sem lifðu
áfram í kristnum löndum, einkum ef þau báru galdrakeim. Lá þá nærri
að vitna til 2. Mósebókar 23,18, en þar segir: „Eigi skalt þú láta galdra-
konu lífi halda." Voru meintir galdramenn og þó einkum meintar galdra-
nornir því snemma ákærð innan kirkjunnar, enda þótt galdraofsóknir
næðu sér ekki verulega á strik í Evrópu fyrr en á 13. öld. Þessar ofsóknir
gengu síðan yfir með hléum allt fram á síðari hluta 18. aldar.
Hér á landi var einnig snúist til varnar gegn galdri á fyrstu öldum
kristninnar og má í því sambandi minna á það sem segir um Jón Og-
mundsson Hólabiskup og aðgerðir hans í þessa átt á 12. öld:
Hann bannaði ok með öllu alla óháttu ok forneskju eða blótskapi,
gerninga eða galdra ok reis í móti því með öllu afli, ok því hafði eigi
orðit af komit með öllu, meðan kristnin var ung. Hann bannaði ok
alla hindrvitni, þá er fornir menn höfðu tekit af tunglkomum eða
guðum, sem er at kalla Óðins dag eða Þórs, ok alla þá hluti aðra, er
honum þóttu af illum rótum rísa. (Biskupasögur II 1953, 96-97)
Hér á landi var þó við ramman reip að draga við upprætingu galdra
eins og annarsstaðar í Evrópu. Þar gekk síðasta alda galdraofsóknar yfir
á 16. og 17. öld og barst hún einnig hingað fljótlega. Galdramál kom upp
hér á landi þegar um miðja 16. öld, en flest voru þau tekin fyrir á 17. öld-
inni sem alkunna er.
Bók Matthíasar Viðars Sæmundssonar einskorðar sig við galdramál
17. aldar hér á landi og er kjarni hennar íslenskt galdrabókarhandrit frá
þessum tíma. Handrit þetta barst til Kaupmannahafnar á síðari hluta 17.
aldar og þaðan til Stokkhólms og hefur verið varðveitt þar síðan. Árið
1921 var handritið gefið út í Uppsölum með inngangi, skýringum og
þýðingu á sænsku. Utgefandinn var Natanael Lindqvist, málvísindamað-
ur, síðar prófessor í málvísindum í Uppsölum. Er útgáfa Lindqvists í alla
staði hin vandaðasta. Fyrst gerir hann grein fyrir viðfangsefninu, skil-
greinir galdur með hliðsjón af trúarbrögðum og vísar til helstu rita við-
urkenndra fræðimanna um það efni. Þá gerir hann einnig viðhlítandi
grein fyrir rúnum, rekur kenningar um uppruna þeirra og sögu eftir
bestu tiltækum heimildum og vísindaritum. Handritinu sjálfu gerir hann
skil á svipaðan hátt, rekur m.a. rithandareinkenni og fleira í máli og stíl
sem verða má lesanda til upplýsingar. Þá gerir Lindqvist grein fyrir sögu
handritsins í stuttu máli og birtir því næst sjálfan textann með sænskri
þýðingu og skýringum. Bók Lindqvists er 77 síður.