Skírnir - 01.04.1994, Page 266
260
JÓN HNEFILL AÐALSTEINSSON
SKÍRNIR
Hér er rétt að hyggja nánar að. Hrabanus Maurus var guðfræðingur
og einhver fremsti lærdómsmaður sinnar samtíðar, ábóti í Fulda og erki-
biskup í Mainz. I augum slíks manns voru trúarbrögð norrænna manna
ekkert annað en galdur, og því er Hrabanus Maurus ekki marktæk heim-
ild um það hvort hér var um galdrarúnir eða helgiletur að ræða. Svipaða
hugsanlega brenglun verður að hafa í huga þegar rætt er um Óðin og
rúnirnar sérstaklega. Óðinn var dýrkaður sem átrúnaðargoð á dögum
norrænnar trúar, en eftir að kristni komst á varð hann fyrst og fremst
galdrameistari í hugum manna. Því verður að taka með sérstökum fyrir-
vara allt sem um hann segir í fornum ritum og reyna af fremsta megni að
tímasetja þær heimildir sem stuðst er við hverju sinni. Þá skiptir öllu
máli hvort heimildirnar bera merki þess að vera frá kristnum tíma eða
hvort hugsanlega er um að ræða heimildir sem varðveist hafa frá tíundu
öld. Slíkan greinarmun heimilda vantar gersamlega í bók Matthíasar. Ég
nefni hér, að hann tekur sem hliðstæð dæmi um rúnagaldur vísu eignaða
Agli Skalla-Grímssyni og málsgrein úr Grettis sögu (bls. 65). Vísa Egils
gæti þó hugsanlega verið frá tíundu öld en kaflinn í Grettis sögu skráður
á 14. öld. Hér og miklu víðar hefði heimildarýni verið nauðsynleg.
Talnagildi rúna gegnir verulegu hlutverki í bók Matthíasar. Vitnar
höfundur til kenninga sem settar hafa verið fram um slíkt talnagildi og
hagnýtir sér þær bæði við skýringar á einstökum greinum Galdrabókar-
innar og einnig víðar í riti sínu. Um þessar kenningar um talnagildi rúna,
sem ýmsir hugkvæmir höfundar hafa sett fram, gildir almennt að þær
hafa fæstar hverjar hlotið hljómgrunn hjá jarðbundnum, strangvísinda-
legum rúnafræðingum.2 Túlkun rúnanna í ljósi þessara kenninga getur
oft verið skemmtileg og áhugaverð, en sá grunnur sem byggt er á er ekki
nægilega traustur til þess að slíkum kenningum verði beitt athugasemda-
laust. Fræðileg greinargerð um rúnakenningar hefði þurft að vera í bók-
inni, þar sem greint hefði verið frá mismunandi traustleik og mismun-
andi viðurkenningu hinna ýmsu kenninga.
Víða er að því vikið í bók Matthíasar að norræn trú hafi lifað með Is-
lendingum, þótt leynt færi, allt fram á 17. öld, en þá brotist upp á yfir-
borðið. Að þessu var vikið þegar í upphafi bókarinnar, eins og fyrr var
getið, en á það er drepið miklu víðar. Þannig segir í niðurlagi við skýr-
ingu á 41. grein Galdrabókarinnar.
Særing þessi sýnir ásamt mörgu öðru að Asatrúin hefur lifað allt
fram á 17. öld þótt hún taki nú á sig afskræmdar myndir. (bls. 414)
2 Ég nefni hér sérstaklega norska rúnafræðinginn Aslak Liestol.