Skírnir - 01.04.1999, Page 19
SKÍRNIR
ER KVÓTAKERFIÐ RANGLÁTT?
13
styðjast við hæpin rök. En fátt annað er augljóst í þessu efni þótt
sumir sem hæst hafa látið í fjölmiðlum hafi talað eins og um
augljós rangindi væri að ræða.
Eg hef nú farið nokkrum orðum um það hvort mönnum var
mismunað með óréttmætum hætti þegar kvótakerfið var tekið
upp. Enn hef ég lítið sem ekkert sagt um hvort einhverjum var
óréttur ger með öðrum hætti en mismunun, hvort kerfið meini
mönnum eitthvað sem þeir eiga rétt á eða verðskulda. Aður en ég
sný mér að þeirri spurningu ætla ég að fara nokkrum orðum um
eignir og eignarrétt.
Eignarréttur
Það sem við köllum eignarrétt er í raun og veru sundurleitt safn
réttinda. Sérhvert einstakt dæmi eignarréttar felur í sér tiltekin
réttindi og tilteknar skyldur. En það er af og frá að alltaf sé um
sams konar skyldur og sams konar réttindi að ræða.
Eigendur hluta, eins og til dæmis bíla, húsa eða skipa, hafa
oftast rétt til að ráða yfir þeim, selja þá, gefa, nota, ráðstafa,
breyta, veðsetja og eyðileggja og allir aðrir hafa þá skyldu að gera
ekkert af þessu án leyfis eiganda. I þrengsta skilningi eignarréttar
afmarka orðin „eign“ og „að eiga“ þessi réttindi. I víðari lög-
fræðilegum skilningi ná þau yfir hvers kyns réttindi, svo sem
höfundarrétt og atvinnuréttindi, sem varin eru af eignarréttar-
ákvæðum stjórnarskrárinnar.
Utan við lögfræðilegan skilning, þröngan og víðan, er svo
ýmis hversdagsleg notkun orðanna „eign“ og „að eiga“. Til dæm-
is er talað um að íslenska þjóðin eigi Þingvelli. En ekki er þar
með sagt að landsmenn megi eyðileggja þá, veðsetja eða selja.
Eign þjóðarinnar á Þingvöllum felur trúlega lítið annað í sér en að
ríkinu beri skylda til að varðveita þá sem þjóðarhelgidóm og
tryggja landsmönnum rétt til að fara þar um og að enginn megi
gera neitt sem kemur í veg fyrir að Islendingar geti um ókomin ár
notið þar óspilltrar náttúru og sögulegra minja.
Orðin „eign“ og „að eiga“ eru oft notuð þótt engum rétti til
að ráða yfir, gefa, nota, ráðstafa, breyta, veðsetja eða eyðileggja sé
til að dreifa. Þau ná yfir mjög flókinn og margbreytilegan veru-
leika. Við tölum til dæmis um að börn eigi foreldra og að hjón