Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 105
SKÍRNIR
JÓN
99
Sókrates: Þó ekki það sem svo vill til að þú þekkir ekki, en Hóm-
er segir samt?
Jón: Hvað gæti það verið sem Hómer segir en ég þekki ekki?
Sókrates: Nú, talar Hómer ekki heilmikið og á fjölmörgum stöð-
um um listir? Til dæmis um vagnakstur. Eg skal fara með
ljóðlínurnar, ef ég man þær.
Jón: Eg skal heldur fara með þær, því ég man þær.
Sókrates: Segðu mér þá hvað Nestor segir við Antilokkos, son
sinn, þegar hann ráðleggur honum að fara varlega í beygjuna í
kappakstrinum til heiðurs Patróklosi.22
Jón: Sjálfur skaltú halla þér lítt það í hinum fagurriðna kerrustól
til vinstri hliðar við hestana; skaltú þá keyra á hægra hestinn
og hotta á hann, og slaka við hann í hendi þér á taumunum,
en vinstri hestur þinn skal sneiða svo nærri marksúlunni, að
þér sýnist, sem hjólnöfin strjúkist með súluröndinni, en varastu
að koma við steininn ...
Sókrates: Þetta nægir! En hvor myndi nú vita betur, kæri Jón,
hvort Hómer fari með rétt mál í þessum línum eða ekki, lækn-
ir eða ekill?
Jón: Auðvitað ekill.
Sókrates: Af því að hann býr yfir þeirri list, eða af einhverri
annarri ástæðu?
Jón: Nei, vegna listarinnar.
Sókrates: Svo sérhverri list hefur guð þá úthlutað getunni til að
þekkja eitthvert verk? Því það sem við þekkjum af stýri-
mannslistinni, getum við ekki einnig þekkt af læknislistinni.
Jón: Auðvitað ekki.
Sókrates: Og það sem við kunnum af læknislistinni, kunnum við
heldur ekki af smíðalistinni.
Jón: Alls ekki.
Sókrates: Og er ekki þannig um allar listir, að það sem við kunn-
um af einni listinni, getum við ekki kunnað af annarri? En áð-
ur en þú svarar mér þessu, segirðu þá eina list vera eitthvað
eitt, en aðra eitthvað annað?
22 II. 23.335-40. íslenska þýðingin er eftir Sveinbjörn Egilsson, sem og allar eftir-
farandi þýðingar á tilvitnunum úr Hómer.