Skírnir - 01.04.1999, Blaðsíða 110
104
PLATON
SKÍRNIR
að riddara eða þeirri sem hefur gert þig að hörpuleikara?“
Hverju myndir þú svara mér?
Jón: Af þeirri sem hefur gert mig að riddara, myndi ég líklega
svara þér.
Sókrates: Og einnig ef þú greindir þá sem spila vel á hörpu,
myndirðu þá samþykkja að það væri af þeirri list sem gerir þig
að hörpuleikara sem þú vissir þetta, en ekki af þeirri sem gerir
þig að riddara?
Jón: Já.
Sókrates: Og þegar þú athugar hernaðarlist, hvort athugarðu hana
með þeirri list sem hefur gert þig að hershöfðingja eða þeirri
sem hefur gert þig að góðum kvæðaþul?
Jón: Mér virðist það engu skipta, fyrir mitt leyti.
Sókrates: Hvernig þá? Segirðu engan mun á? Segirðu að list
kvæðaþularins og hernaðarlist sé ein, en ekki tvær?
Jón: Mér virðist hún allavega vera ein.
Sókrates: Svo hver sá sem er góður kvæðaþulur, hann reynist þá
líka vera góður hershöfðingi?
Jón: Auðvitað, Sókrates.
Sókrates: Er þá líka hver sá sem reynist góður hershöfðingi,
einnig góður kvæðaþulur?
Jón: Nei, það virðist mér hins vegar ekki.
Sókrates: En þó virðist þér þetta, að hver sá sem er góður kvæða-
þulur, sé líka góður hershöfðingi?
Jón: Sannarlega.
Sókrates: Og ert þú ekki besti kvæðaþulur Grikkja?
Jón: Langbestur, Sókrates!
Sókrates: Nú, ertu þá ekki besti hershöfðingi Grikkja, Jón minn?
Jón: Vittu bara til, Sókrates, og ég hef lært það af Hómer.
Sókrates: En hvernig í guðs nafni stendur þá á því, Jón, að þú,
sem ert bestur Grikkja, bæði sem hershöfðingi og kvæðaþul-
ur, valsar um á milli allra Grikkja og kemur fram sem kvæða-
þulur en ekki sem hershöfðingi? Eða virðist þér mikil þörf
meðal Grikkja fyrir gulli krýnda kvæðaþuli, en engin fyrir
hershöfðingja?
Jón: Vegna þess, Sókrates, að minni heimaborg er stjórnað af
ykkur, og er undir ykkar hershöfðingjum og þarfnast ekki