Skírnir - 01.04.1999, Qupperneq 142
136
SVERRIR JAKOBSSON
SKÍRNIR
Gregorius Dagsson: „Margir menn þykki mér mjúkari í sóknum
en þér Islendingar, því að þér eruð óvanari en vér Nóregsmenn,
en engir þykja mér vopndjarfari en þér.“135 Menn vissu af ólíkum
siðum í löndunum, í drykkjuskap og vopnaburði, en ekki var þar
með sagt að eðlismunur væri á íbúum þeirra. Kirsten Hastrup og
Else Mundal telja að Islendingar og Norðmenn hafi átt samkennd
gegn Dönum og Svíum.136 Ekki eru þó dæmin sem þær tína til af-
gerandi sönnun þess og þarfnast sú skoðun frekari rökstuðnings.
Sigurður Nordal andæfði sérstöku þjóðerni Islendinga á mið-
öldum. Hann taldi þá ekki hafa ímyndað sér:
að hér ætti að myndast ný þjóð í þeim skilningi, sem síðar varð. Niðjar
þeirra héldu áfram að tala danska tungu eða norrænt mál, fóru ekki að
tala um íslenzka tungu, fyrr en frændþjóðir þeirra höfðu breytt sínum
málum. Þeir vissu að vísu, að þeir voru Islendingar, íbúar Islands, en
fundu ekki til þeirrar sérstöðu öðru vísi en Þrændur gagnvart Víkverj-
um, Gautar gagnvart Svíum, Jótar gagnvart Skánungum. Sjálfstæði var
eitt og þjóðerni annað.137
Margt er til í þessu. Islendingar voru ekki þjóð í sama skilningi og
Danir eða Norðmenn. Fyrir 1262 tilheyrðu þeir ekki konungs-
ríki. Þjóðernisleg samkennd þeirra er sprottin af öðrum rótum en
þeim sem konungar reyndu að gróðursetja meðal þegna sinna.
Bogi Melsteð leiddi að því rök að Islendingar hafi skynjað sér-
stöðu sína í Noregi. Sagan af Gísli Illugasyni úr Jóns sögu helga
sýni það, einnig viðurnafnið mörlandi eða -fjandi, sem Islending-
ar höfðu á Norðurlöndum. Norðmenn séu oft andstæðir Islend-
ingum, t.d. segir í Víga-Glúms sögu frá höfðingja sem „þykja illir
135 Snorri Sturluson, Heimskringla, III, bls. 349.
136 Kirsten Hastrup, „Defining a Society: The Icelandic Free State Between two
Worlds,“ Scandinavian Studies, 56 (1984), 235-55 (bls. 237-40), Else Mundal,
„De norske rotenc, forholdet til Noreg og den islandske identiteten", Sagas
and the Norwegian Experience - Sagaene og Noreg. 10. internasjonale saga-
konferanse - 10,h International Saga Conference, Trondheim, 1997, 479-88
(bls. 479).
137 Sigurður Nordal, Islenzk menning I (Arfur íslendinga), Reykjavík, 1942, bls.
97-98.