Skírnir - 01.04.1999, Page 149
SKÍRNIR
ÍSLENSK ÞJÓÐERNISVITUND
143
Andófið gegn þjóðernishyggjunni lá þannig í loftinu hér á íslandi
að minnsta kosti frá því í kringum 1960, þó að það hafi ekki skil-
að mikilli prentaðri sögu. Sagnfræðingahópurinn var fámennur á
þessum árum og hafði í mörgu að snúast, en svo má líka hugsa sér
að endurskoðun sögunnar hafi tafist af því að nýja almenna kenn-
ingarundirstöðu vantaði.
Það var varla fyrr en á síðasta áratug sem andþjóðernishyggj-
an fékk þann kenningargrunn að standa á sem gerði henni kleift
að móta umræðuna. Grunnurinn var það sem hefur verið kallað
módernismi í enskumælandi umræðunni. Hann er sú skoðun að
fyrirbærið sem er táknað með enska orðinu nation hafi ekki orð-
ið til fyrr en á nýöld, varla fyrr en á 18. öld eða í upphafi 19. ald-
ar. Andófið gegn þjóðernishyggjunni, af því tagi sem Sigurður
Líndal birti árið 1964, gat farið nærri módernisma, en sigurganga
hans hófst samt tvímælalaust árið 1983 með útkomu tveggja af-
burðasnjallra og sannfærandi bóka á ensku, Imagined Comm-
unities eftir Benedict Anderson og Nations and Nationalism eftir
Ernest Gellner.6 Síðan þá hefur svo mikið breyst að nú verða
sagnfræðikennarar í Háskóla Islands að sannfæra nemendur sína
um að það hafi verið til eitthvað sem var kallað þjóðir fyrr en á
19. öld. Einn mann hef ég hitt útlendan sem var gersamlega
óhagganlegur í þeirri skoðun sinni að íslenska hefði verið útdautt
tungumál þegar það var endurvakið á 18. og 19. öld. Hann hafði
verið eitthvað í námi hér heima; ég mundi vel eftir honum á
göngunum í Árnagarði. Hann virðist þannig hafa lagt helst til
mikið í það sem honum hefur verið sagt um íslenska málhreins-
unarátakið.
Misskilningur fólks á módernismanum í þjóðernishyggju-
fræðum stafar að hluta til af ruglingi á hugtakinu þjóð, eins og
það er og hefur lengi verið notað í íslensku, og enska hugtakinu
nation. Enginn sem þekkir til efar að þjóðir hafi verið til svo lengi
sem sögur herma, og þá er átt við stóra hópa fólks sem þekkist
ekki allt persónulega en segir skil á sér með sama nafni, hefur oft-
6 Benedict Anderson: Imagined Communities. Reflections on the Spread of
Nationalism (London, Verso, 1983). - Ernest Gellner: Nations and National-
ism (Oxford, Basil Blackwell, 1983).