Skírnir - 01.04.1999, Síða 195
SKÍRNIR
ENDURSKOÐUÐ ENDURSKOÐUN
189
punktur", árið 1979, er ekki nefndur út í loftið. Það var árið sem
Thatcher komst til valda, Reagan ári síðar, og það tvennt markaði
þáttaskil í stjórnmálum á Vesturlöndum. Hægri sveiflan stafaði
öðru fremur af því að hinum kapítalíska þenslutíma eftirstríðsár-
anna var þá lokið. Undir fánum nýfrjálshyggjunnar hefur mark-
aðsvæðingin síðan farið sínu fram. Segja má að umskiptin, ekki
síst í Evrópu, séu frá „stýrðum kapítalisma“ með öflugum opin-
berum geira og velferðarkerfi til frjálshyggjukapítalisma. Valdið í
samfélaginu færist á æ fleiri sviðum frá pólitíkinni yfir til mark-
aðarins. Gamla kerfið, sem mjög var markað svokölluðum
keynesisma og hefðbundinni kratískri pólitík, hvort sem vinstri
eða hægri flokkar voru í ríkisstjórnum, fól í sér hagkerfi sem var
að vissu marki pólitískt stýrt með pólitískt stýrðu velferðarkerfi.
Vissar hömlur voru á frelsi markaðarins, pólitísk stjórnun var á
mikilvægum sviðum atvinnu- og fjármálalífs og opinberi geirinn
var efldur til að jafna og milda eðlislæga misskiptingu kjara í kap-
ítalísku kerfi. Undanfarna tvo áratugi hafa stjórnmálamenn
(einnig kratar allra landa) verið að fleygja þessari stefnu fyrir
borð í misstórum skömmtum, svo lítið stendur eftir. Sú allsherj-
arlausn sem kemur í staðinn er að gera markaðinn að algildu
hagstjórnartæki. Á þessum tíma hefur umsetningin á verðbréfa-
mörkuðum heimsins aukist hraðar og hraðar, óháð framleiðslu-
aukningu, og margfaldast á fáum árum.
Á alþjóðlegum vettvangi birtist sókn markaðsaflanna sem
hnattvæðing þar sem þjóðríkin framselja sífellt meira vald til hins
alþjóðlega fjármálamarkaðar, til fj ölþj óðlegra auðhringa, til Al-
þjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, enn fremur með
milliríkjasamningum um óheft flæði fjármagns og vöru. Dæmi
um slíka samninga er GATT, sem fram um 1980 snerist einkum
um frjálsa vöruverslun en hefur í seinni tíð þróast meira í samn-
ing um frjálst flæði fjármagns milli ríkja, og nafninu verið breytt í
Alþjóða viðskiptastofnunin, WTO. Árið 1997 varð það opinbert
að auðklúbburinn meðal ríkja, OECD-löndin, var að semja milli-
ríkjasáttmála um fjárfestingar, MAI (Multilateral Agreement on
Investment) og er stefnt að því að gera þann samning að yfirþjóð-
legum lögum. Kjarni hans er sá að erlendir fjárfestar fái í hverju
landi nákvæmlega sömu réttindi og innlendir, og frelsi og réttindi