Skírnir - 01.04.1999, Side 209
SKÍRNIR
ENDURSKOÐUÐ ENDURSKOÐUN
203
tákna og þjóðsagna. En við hljótum að spyrja af hverju liðsöfnun
á einmitt þessum grunni reyndist svona fjarskalega árangursrík?
Ein tilvistarforsenda manna sem einstaklinga og félagsvera er
sjálfskennd þeirra og samkennd með öðrum í því menningarsam-
félagi sem þeir hrærast í og þekkja. Sjálfskennd manns grundvall-
ast ekki aðeins á þjóðerni heldur m.a. fjölskyldu, héraði, stétt og
trú, en það sýnir sig að þjóðarvitundin er ákaflega sterkur þáttur,
missterkur þó eftir löndum (hlutverk þjóðarvitundar hefur m.a.
aukist í takt við minnkandi hlutverk trúarinnar).14 Tilfinningin
fyrir því að vera hluti af þjóð gefur einstaklingnum samastað og
fótfestu í tilverunni. Þjóðarvitundin er augljóslega afar sterkt
bindiefni inn á við. Ut á við hefur hún, í afskræmdum myndum,
vissulega oft verið sundrandi afl. Engu að síður hlýtur sérstök
samkennd með eigin þjóð að geta samrýmst hugmyndinni um
bræðralag manna, líkt og Arni Bergmann hefur bent á, og lausnin
ætti að liggja í því að blanda þessum þáttum saman.15
Eftir Nurnbergréttarhöldin hafa lýðræðissinnar umgengist
þjóðernishyggju af meiri varúð. Þeir vilja sem mest forðast sálu-
félag við Adolf Hitler. Hitler verður hins vegar ekki með neinum
sanni kallaður þjóðernissinni, þótt hann gerði það sjálfur, því
hann virti ekki þá meginreglu þjóðernissinna að hver þjóð skuli
ráða sínum málum sjálf. Auðvitað er ástæða til að undirstrika að
þjóðernislegar hreyfingar, t.d. í Evrópu, eru margs konar og mis-
jöfn öfl þar í forystu. Hér verður ekki farið út í neina flokkun á
þeim, frá heilbrigðri þjóðrækni til þjóðrembu. Sú staðreynd að
þjóðarvitund hefur oft verið virkjuð sem eyðandi afl sýnir
kannski fyrst og fremst hvað hún er ríkur og sterkur þáttur í
mönnum. Að eftirláta öfgasinnuðum hægri mönnum, fasistum og
þjóðrembum að höfða til þess þáttar er bæði óskynsamlegt og
hættulegt.
14 Sjá Gunnar Karlsson. „The Emergence of Nationalism in Iceland." Ethnicity
and Nationbuilding in the Nordic World, 1995, bls. 33-62. Gunnar veltir fyrir
sér hvers vegna sjálfskennd Islendinga hefur svo mjög tengst þjóðerninu og
gert þá næma fyrir þjóðernishyggju.
15 Árni Bergmann. „Til hvers er þjóðernisumræðan?“ Skírnir, 171. árg. haust
1997.