Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 9
HRÓLFUR ÞORSTEINSSON Á STEKKJARFLÖTUM
eftir BJÖRN EGILSSON á Sveinsstöðum
Þegar ég minnist Hrólfs Þorsteinssonar, bónda á Ábæ og
Stekkjarflötum, finnst mér, að hann hafi engum manni verið líkur,
sem ég hef þekkt fyrr eða síðar, svo sérstæður var hann og merki-
legur á margan hátt. Um árabil hafði ég allnáin kynni af Hrólfi, og
það, sem hér verður frá honum sagt, er samkvæmt því, sem hann kom
mér fyrir sjónir á þeim tíma.
Hrólfur var fæddur að Litladalskoti — sem nú heitir Laugardalur —
í Lýtingsstaðahreppi 21. maí 1886. Foreldrar hans voru Þorsteinn
Sigurðsson og Ingibjörg Guðmundsdóttir kona hans. Þau munu hafa
verið þar í húsmennsku þetta ár, en næsta ár, 1887, hófu þau búskap
í Sölvanesi og bjuggu þar til 1889, en fluttu þá búferlum að Hofi í
Vesturdal og bjuggu þar til 1902, að þau fluttust að Skatastöðum og
bjuggu þar síðan til 1920. Þorsteinn andaðist þar 1921, og Ingibjörg
andaðist þar líka í hárri elli, 1942.
Þau Þorsteinn og Ingibjörg áttu þrjá syni; auk Hrólfs: Guðjón,
bónda á Skatastöðum, sem er látinn fyrir nokkrum árum, og Björn,
sem enn býr á Skatastöðum. Hann var þeirra yngstur.
Þorsteinn á Skatastöðum var sonur Sigurðar bónda í Gilhagaseli,
Sigurðssonar bónda á Mosfelli í Svínadal, Þorleifssonar, en móðir
Þorsteins var Oddný Sigurðardóttir bónda á Lýtingsstöðum og Bjarg-
ar Ólafsdóttur Andréssonar í Valadal. Sigurður á Lýtingsstöðum var
bróðir Stefáns Sigurðssonar í Keflavík, föður Stefáns á Heiði í Göngu-
skörðum. Hann drukknaði í Héraðsvötnum 1832.
7