Skagfirðingabók - 01.01.1970, Page 200
SKAGFIRÐINGABÓK
Höfðavatn fyrrnefnt er utarlega á ströndinni, sunnan og austan undir
Þórðarhöfða. Það er stærsta vatn í Skagafirði, um 12—13 km2. Fjórir
bæir eiga land að vatninu, Bær, Mannskaðahóll, Vatn og Höfði. Tölu-
verð veiði er í Höfðavatni, sérstaklega veiddist mikið á Höfða, en
þar í vatninu var talið að silungurinn hrygndi. Helztu aðrennsli í
vatnið eru Höfðaá, er kemur úr samnefndum dal, Gljúfurá, er rennur
á milli Höfða og Vatns, Hólsós og Urriðalækjarós.
Eitt sinn kom til orða að gera höfn í Höfðavatni. Var það Jóhann
Sigurjónsson skáld frá Laxamýri, er stóð fyrir því. Komst það svo
langt, að keyptar voru þrjár jarðir við vatnið: Bær, Mannskaðahóll
og Vatn. En svo féll Jóhann frá, og gengu þá jarðakaupin til baka.1
Þórðarhöfði liggur, eins og áður segir, norðan og vestan við Höfða-
vatnið. Hann er 5 km2 að stærð og hækkar í sjó fram. Þar sem hæst
ber, er hann 202 m. Heitir þar Herkonuklettur. Grösugt er í Höfðan-
um og góð fjörubeit. Sunnan og austan eru svonefndar Búðarbrekkur.
Er þar gróðursæld mikil, og vex þar mikið af blómjurtum. í Búðar-
brekkunum eru þrír móbergsklettar, og var þar talin huldufólksbyggð.
Átti einn að vera kirkja, annar bústaður og hinn þriðji sölubúð, sbr.
hina kunnu þjóðsögu af bóndanum á Þrastarstöðum.
Tilsýndar er Þórðarhöfðinn eins og eyja, en hann er tengdur landi
með tveimur malarrifum: Bæjarmöl, sem liggur frá norðri til suðurs
og kemur í Höfðann vestast, og svo Höfðamöl, sem liggur frá vestri
til austurs og tengir hann við land jarðarinnar Höfða, en Þórðarhöfði
er eign hennar og Bæjar.
1 I Lesbók Mbl. 15. febr. 1970 er grein eftir Björn Jónsson í Bæ um Höfða-
vatn og hugmyndina að hafnargerð þar. Segir Björn, að Gústaf Grönvold,
síldarkaupmaður á Siglufirði, hafi fengið áhuga á hafnargerð þarna og gert
samning þar að lútandi við eiganda Bæjar árið 1916. En Grönvold lézt stuttu
síðar, og ekkjan afsalaði sér tilkalli til landspildu þeirrar við Höfðavatn, sem
keypt hafði verið. — Þann 15. maí 1919 keypti „danskt-íslenzkt milljóna-
félag, sem fékk nafnið Höfðavatn" jarðirnar Bæ, Mannskaðahól og Vatn fyrir
samtals 130 þús. kr. í því skyni að koma upp hafnarmannvirkjum við vatnið.
Umboðsmaður félagsins „og áreiðanlega aðaldriffjöður var Jóhann Sigurjóns-
son skáld." Hann lézt 31. ágúst 1919, „og þar sem ekki var staðið við gerða
samninga, gengu öll kaup á jörðunum til baka og urðu þær eign fyrrverandi
eigenda", segir Björn í grein sinni. (H. P.).
198