Skagfirðingabók - 01.01.1970, Page 206
SKAGFIRÐINGABÓK
korn eða rúgmjöl, dálítið af grjónum og hveiti og svo sitt pundið af
hvoru kaffi og sykri; eitthvað til fata, en annars var reynt að vinna
allan klæðnað sem mest heima. Þeir, sem ekki áttu kindur, skiptu á
fiski og ull. Aðalinnlegg var það stærsta úr þorskinum og stór ýsa.
Frá því í nóvember og fram í miðjan apríl fékkst varla bein úr sjó,
en þá fór að fiskast rauðmagi, en aldrei var það mikið magn. Á vorin
kom svo fuglinn frá Drangey. Var það mikil búbót, en ærin vinna
að koma honum í mat. Fyrst þurfti að plokka hann, síðan var hann
sviðinn. Þá voru hryggirnir teknir frá bringunni, soðnir og látnir í súr.
Bringan var annaðhvort söltuð eða reykt. Væri hún söltuð, var beinið
tekið burt, annars var það látið halda sér. Annað kjöt var lítið notað
á efnaminni heimilum nema helzt á sunnudögum og hátíðum. Allur
matur var mjög sparaður, enda þurfti að gæta þess, að það, sem afl-
aðist yfir vertíðina, entist allt árið.
Allir þeir búendur, sem um getur í þessu spjalli, eru nú horfnir af
sjónarsviðinu nema Einar í Mýrakoti og Sigríður Halldórsdóttir á
Mannskaðahóli, en hún er nú að verða 94 ára gömul. Búið er að jafna
alla byggð við jörðu í Kotunum og á Klettunum. Þar hafði margur
háð sína baráttu fyrir lífinu, misjafnlega sigursæla, trúað á guð og reynt
að leysa vandræði sín sjálfur, eða eins og bóndi einn úr Borgafirði
sagði eitt sinn, er talað var um alla styrkina undanfarin ár: „f mínu
ungdæmi leituðu menn styrks hjá Drottni og hjálpuðu sér svo sjálfir."
Skráð í viarz og apríl 1971.
204