Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 172
SKAGFIRSINGABÓK
setning greinarmerkja er færð í nútímalegt horf og auðsæ penna-
glöp að sjálfsögðu leiðrétt.
Rétt þótti að skjóta stuttum inngangi um ætt, uppruna og ævi-
feril síra Páls framan við frásögn Guðmundar. Það er þó vitaskuld
engin tæmandi ævisaga, heldur einungis til þess ætlað að gera
ókunnugum lesanda söguefnið örlítið ljósara.
Viðaukum og leiðréttingum hefur verið bætt inn í neðanmáls-
greinum, eftir því sem föng voru til og þörf þótti á.
í I. hefti Skagfirðingabókar er langur þáttur um Fljótin eftir
Guðmund Davíðsson. A undan þeim þætti er gerð grein fyrir höf-
undi, og vísast hér til þess, svo og æviskrár hans í Skagfirzkum
æviskrám.
Síra Páll Tómasson fæddist 23. nóv. (eða 23. okt.) árið 1797 og
lézt 10. nóv. 1881. Foreldrar hans voru Tómas gullsmiður Tóm-
asson í Ráðagerði á Alftanesi (af skagfirzkum ættum) og Guðrún
Þorgrímsdóttir að Þverá í Oxnadal, Jónssonar. Síra Páll var þvi
bróðir Þorgríms gullsmiðs á Bessastöðum, föður Gríms Thomsens.
Var Þorgrímur 15 árum eldri en Páll, og tók hann bróður sinn til
sín ungan að aldri og sá honum fyrir skólavist. Heldur sóttist bó
Páli námið treglega, því að í Bessastaðaskóla var hann í níu ár
(1818—1827) og hafði þó notið undirbúningskennslu í sex ár,
áður en hann fór í skóla. Frá Bessastöðum útskrifaðist hann með
lélegum vitnisburði. Prestur var síra Páll í Grímsey 1828—1834, og
þaðan fór hann að Miðdal í Laugardal 1835 og þjónaði þar til árs-
ins 1841, en þá missti hann prestskap vegna hórdómsbrots, enda
sagður allkvenhollur. Uppreisn fékk hann þó tveim árum síðar.
Fór hann þá að Knappsstöðum og var þar prestur frá 1843 til
1881. Hafði hann sagt af sér prestskap nokkrum mánuðum áður
en hann andaðist.
Páll Eggert Ólason (Isl. æviskrár), sem hér er fylgt að mestu,
gefur nafna sínum þennan vitnisburð: „Hann var tápmaður mikill
og atorkumaður, manna fræknastur, lærdómsmaður enginn, heldur
óprestiegur í háttum, enda drykkfelldur". Virðist þetta sanngjarn
dómur og mildur, þegar sagnir um prest eru hafðar í huga.
í Blöndu V., bls. 261—279, er þáttur um síra Pál. Þar er getið
nokkurra sagna um prest, er Jón Jóhannesson á Siglufirði hefur
safnað. Verður til þess þáttar vitnað hér á eftir, þar sem gerr er frá
sagt eða öðru vísi hermt. I öllum aðalefnum ber þeim Jóni og
Guðmundi saman um sérkennileik síra Páls, að því fráskildu þó, að
Jón gerir meira úr gáska prests og hrekkjum, sem hann lagði ekki
170