Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 14
SKAGFIRBINGABÓK
af ríkisheimili föður síns í forboði hans og flytjast í annan lands-
fjórðung með manni, sem hún vildi eiga. Skaphöfn hennar hefur
verið sú, að hún hefur viljað ráða sér sjálf og ekki látið sér allt fyrir
brjósti brenna.
Vafalaust er það, að Valgerður, kona Hrólfs á Ábæ, bar nafn
langömmu sinnar frá Skildinganesi. Báðar bjuggu þær á Ábæ all-
lengi, og báðar áttu þær mörg börn, og ekki er ólíklegt, að skaphöfn
þeirra og eðlisfar hafi verið eitthvað líkt. Valgerður Kristjánsdóttir var
mikil myndarkona í sjón og raun, búsýslukona eins og það var kall-
að, vel verki farin og allt handbragð hennar snyrtilegt. Þau hjón
voru um sumt ólík, en snyrtimennska við öll störf var þeim báðum
í blóð borin, og ekki er það ofsagt, að heimili þeirra væri í fremstu
röð að allri umgengni bæði utan húss og innan. Gestrisin voru þau
bæði og höfðingjar heim að sækja.
Valgerður var fáskiptin og dul í skapi, en þó viðræðugóð. Skap-
mikil var hún talin og þykkjuþung, ef í odda skarst, en ekki þekkti
ég það þó. En hún var vinföst og trygglynd. Sem dæmi um það vil ég
nefna ummæli hennar um Ólínu ljósmóður í Litluhlíð, sem tók á móti
sex börnum hennar á Ábæ. Þegar ég spurði hana um Ólínu, svaraði
hún: „Hún var mín bezta vinkona bæði lífs og liðin. Enginn hefur
verið mér betri, hvorki skyldur né vandalaus."
Hrólfur Þorsteinsson var meðalmaður á hæð eða rösklega það, en
grannur vexti og þunnur á vanga. Hann var lundgóður, svo að ég varð
aldrei var við, að hann skipti skapi. Hann var léttur á fæti og það svo
af bar, meðan hann var á bezta skeiði. Margar sögur heyrði ég af
gönguferðum hans, þar sem hann hljóp við fót og lagði nótt við dag.
En ekki kynntist ég því af eigin raun, því þegar við vorum saman, var
hann sextugur að aldri, og svo vorum við þá alltaf hestríðandi.
Hrólfur var sannarlega maður morgunsins, svo svefnléttur, að ég
held, að hann hafi aldrei sofið eftir kl. 5 á morgnanna. Gott þótti
honum að sofna á kvöldin, en þó það væri ekki, vaknaði hann á sama
tíma. Hann var léttur í máli, kunni frá mörgu að segja, var glaður
í frásögn og naut þess vel að segja frá. Hann hafði traust minni, var
nákvæmur í frásögn, og það voru ekki síður smáatriði, sem gerðu
söguna að sögu.
12