Skagfirðingabók - 01.01.1970, Blaðsíða 75
MINNINGABROT
við þau, en fylgdu sínu máli fast, leiddu þeim fyrir sjónir, hve mikið
væri í húfi fyrir hreppsfélagið og báðu þau að líta á málið frá þeirri
hlið. Móðir mín sagði mér þetta sjálf. Hún sagði, að þau hefðu orðið
svo hissa, að þau hefðu fátt sagt fyrst. Hún hafði orð fyrir þeim og
sagði að sjálfsögðu yrðu þau að fara, ef húsbændur þeirra óskuðu þess,
en að öðrum kosti ekki.
í sömu svipan snaraðist Þorkell inn og var alldrukkinn. Hann spurði,
hvað um væri að vera, og var nokkuð gustmikill. Þeir sögðu hönum nú,
hverra erinda þeir væru komnir, báðu hann að vera rólegan og ræða
málið. Móðir mín sagði, að sér hefði aukizt kjarkur, þegar Þorkell
var kominn, og spurði þá, hvort þeim hefði ekki dottið það snjallræði
í hug að flytja sig á kláfnum yfir á vesturbakka Héraðsvatna, meðan
hún fæddi barnið, því þá væri ekki hægt að segja, að það ætti fæðingar-
hrepp hjá þeim. Um leið gekk Þorkell til foreldra minna, tók um axlir
þeirra og sagði: „Þið verðið kyrr hjá mér, börnin mín, og barnið ykk-
ar líka". Síðan sneri hann sér að aðkomumönnunum, reiddi upp hnef-
ann og sagði: „Farið þið til Helvítis, því þar eigið þið heima".
Það varð víst fátt um kveðjur, og var ekki minnzt á þetta mál oftar.
Foreldrar mínir komu upp sjö börnum án opinberrar hjálpar. Manni
virðist þetta furðulegt, því þessir forráðamenn voru báðir viðurkennd-
ir heiðursmenn, en líklega hefir þetta verið þeirra skylduverk. For-
eldrum mínum var alla tíð vel við Flatatunguhjón.
Steingrímur Jónsson og Kristín Árnadóttir bjuggu á Silfrastöðum.
Kristín var sérstök myndarkona, glöð og djörf í orði og hispurslaus,
rausnarkona mikil og góð húsmóðir, enda var þar vanalega fjöldi
fólks í heimili. Þar var alla tíð gleði og frjálsræði, og þar voru haldnar
dansskemmtanir, sem fólk sótti úr ýmsum áttum. Steingrímur hafði
allstórt bú og var talinn frekar efnaður, enda eru Silfrastaðir með
beztu fjárjörðum. Stundum valt þó á ýmsu með skepnuhöld.
Steingrímur ól upp uxa og beitti þeim að vetrinum fram í fjall og
var nokkuð harður við þá stundum, og vísan eftir Símon Dalaskáld
bendir til, að hann hafi staðið yfir þeim í hríðum:
73