Breiðfirðingur - 01.04.1950, Page 28
26
BREIÐFIRÐIN GUR
Björn Guðfinnsson af hendi gífurlega mikla vinnu, og merkilegt
vísindastarf og átti þó við þrotlaust heilsuleysi að búa. — Hann
kenndi í skólum og útvarpi, ferðaðist um meginhluta íslands og
prófaði framburð æskulýðsins, skrifaði vísindalegar ritgerðir og
bækur og lá margar langar legur á sjúkrahúsum heima og erlendis.
— Vinnuþrek hans var fádæma mikið og honum datt aldrei í hug
að hlífa sér.
Ég hefi hvorki þekkingu eða aðstöðu til að meta eða skýra
vísindaleg afrek dr. Björns, enda eiga þessi fáu orð að vera
kveðja mín til þessa látna Breiðfirðings, en hvorki starfs- eða
ævisaga. í blóma lífsins er hann kallaður burt á miðjum starfs-
degi. — Breiðafjarðarbyggðir eiga á bak að sjá einum sínum
merkasta og lærðasta syni, og landið allt og þjóðin hefur misst
þarna afreksmann í íslenzkum fræðum og mikinn málfræð-
ing. Vinir dr. Björns hafa misst hreinskilinn, fluggáfaðan félaga,
sem jafnan hafði ákveðnar skoðanir og lét þær í ljós ómyrkur
í máli. En mestur er missir ástvinanna, sem enginn fær metið. —
Mörgum árum eftir að Björn var að heiman farinn, kom ég að
Galtardal. Bæjarhúsin voru ekki háreist né viðamikil. en mót-
tökurnar voru hlýjar og gestrisnin ógleymanleg. Mér er líka í
minni svipur húsfreyjunnar, er við minntumst á soninn, sem þá
sigldi hraðbyri á menntabrautinni. Hún ól djarfa drauma um
framtíð hans og frama. Þeir draumar hafa nú rætzt, en ekki
fengið að njóta sín til fulls. A mestu manndómsárunum er son-
urinn fallinn í valinn, en störf hans eiga eftir að lifa lengi með
þjóðinni.
Stefán Jónsson