Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Qupperneq 96
Á r n i B l a n d o n E i n a r s s o n
96 TMM 2015 · 1
Fimm árum eftir að Hallberg stofnaði bókaforlag sitt fór hann að vinna
að útgáfu á stuttum ljóðaheftum, hvert hefti 32 blaðsíður að lengd. Að mestu
leyti var um að ræða íslenskar þýðingar hans á ljóðum úr ensku, spænsku og
norrænu málunum, en einnig var um að ræða íslensk ljóð sem hann þýddi á
ensku. Í hverju hefti var einn tiltekinn höfundur kynntur. Í því fyrsta voru
25 ljóð eftir Daud Kamal og næst komu 26 ljóð eftir Federico García Lorca.
Í þriðja bæklinginn sem kom út árið 1999 valdi Hallberg 23 ljóð eftir Ted
Hughes úr bókinni New Selected Poems (1982). Sú bók samanstendur af
völdum ljóðum úr ljóðabókunum Hawk in the Rain (1957), Wodwo (1967),
Crow (1970), Remains of Elmet (1979) og Earth-Numb (1979). Hallberg gaf
kverinu nafnið „Þistlar“ sem er fyrsta ljóðið í „Wodwo“, líklega vegna ljóð-
línanna sem þar birtast: „… a grasped fistful / Of splintered weapons and
Icelandic frost thrust up // From the underground stain of a decayed Viking.“
Á baksíðu bæklingsins skrifaði Hallberg: „Síðasta bók Ted Hughes var
Birthday Letters (1998), safn 88 ljóða, sem fjalla á mjög persónulegan hátt
um samband þeirra Sylviu Plath. […]“ Þegar þarna var komið sögu hafði
Hallberg ekki séð Birthday Letters, en hann valdi eitt ljóð, í þennan kynn-
ingarbækling á ljóðum Ted Hughes, úr New Selected Poems sem birtist síðar
í Birthday Letters: „You hated Spain“.
Líklega var það að hluta til hinn „downtrodden Irish“ þáttur í persónu-
leika Hallbergs sem gerði það að verkum að hann bað mig ekki um, áður en
hann dó, að gefa út þann mikla fjölda ljóðaþýðinga sem hann hafði lokið
við og geymdi í tölvunni sinni. Þess vegna tók ég mig til, viku áður en hann
dó, og spurði hann hvort ég ætti að gefa út hjá útgáfufélagi hans, þau verk
sem hann hafði ekki komið á framfæri. Ég vissi að hann hafði tapað miklu
fé á útgáfustarfseminni, og var í vafa um hvort „the dourest Scots“ þáttur í
persónuleika hans myndi ráða svari hans. En sem betur fer var svar hans
óhikað og feginsamlegt „Já“.9
Hallberg hafði nýlokið við að þýða Kráku eftir Ted Hughes, þegar hann
veiktist af krabbameini, tæplega áttræður að aldri og þrek hans þraut. Ég
útvegaði útgáfurétt fyrir íslensku þýðinguna hjá Faber and Faber, og bókin
kom út árið 2012. Hallberg hafði einnig þýtt 37 ljóð úr Birthday Letters áður
en hann dó. Ég þýddi hin ljóðin (51 að tölu) og bókin náði inn á hinn líflega
jólabókamarkað árið 2013.10
Skandinavískt kal
Þegar ég vann að mínum hluta íslensku þýðingarinnar á ljóðabókinni
Birthday Letters, átti ég það til að skoða hvernig skandinavísku þýðendurnir
hefðu leyst úr erfiðum þýðingarhjöllum. Oft kom það sér vel að geta skoðað
vinnubrögð kolleganna, en hins vegar kom það mér mjög á óvart hvað
ónákvæmnin var oft mikil í þessum þýðingum.
Ef fylgt er greiningu Ted Hughes á genasamsetningu Íslendinga, þá mætti