Tímarit Máls og menningar - 01.02.2015, Síða 98
Á r n i B l a n d o n E i n a r s s o n
98 TMM 2015 · 1
er sleppt á milli ,Only the sea‘ og ,could scour you‘ (,Kun havet kunne
renskure dig‘, bls. 157); ekki er minnst þar á nein sjávarsölt til þess að hreinsa
Sylviu Plath.23 Í þessu ljóði komu skapþyngsli Sylviu fram ,late in the day‘
(bls. 155), en í dönsku þýðingunni komu þau „of seint“ (,Din krise kom for
sent‘, bls. 158). Í dönsku þýðingunni á „Grand Canyon“, er það aðeins Sylvia
Plath, en ekki Ted Hughes, sem horfir á múldýrin: ,så du muldyrene‘ (bls.
100), ,þú horfðir á múldýrin‘ en í frumgerðinni stendur ,Watching the mules
[…] we drifted our gaze‘ (bls. 96). Í þessu ljóði er því lýst að Sylvia sé gengin
sex vikur með (,Six weeks pregnant‘, bls. 96); í dönsku þýðingunni er hún
hins vegar gengin sjö vikur með: ,syv uger henne‘ (bls. 100).
Í ljóðum Ted Hughes er mikil nákvæmni í notkun á hrynjandi og áherslum.
Ef ljóðlína samanstendur af einu orði, þá er það vegna þess að orðið hefur
sérlega mikið innihaldslegt og/eða tilfinningalegt vægi. Engin metnaðar-
full þýðing á ljóðum getur forsómað að halda til haga slíkum listrænum
brögðum af ýtrustu nákvæmni. Orðin ,Everybody knew everything‘ (bls.
190) í ljóðinu „The God“ eru svo mikilvæg að þau eru einangruð frá öðrum
orðum í ljóðinu með því að láta þau standa sér í einni ljóðlínu. En í dönsku
þýðingunni, er þessum orðum hnoðað inn í ljóðlínurnar ,/[…] the tongues /
of fire told their tale. And suddenly / Everybody knew everything. /‘ Í dönsku
þýðingunni verða þannig tæpar þrjár ljóðlínur að einni: /,ildtungerne for-
talte deres historie. Og pludselig vidste alle alt/‘ bls.190).24
Þegar kom að því að semja góðar lokalínur í ljóðum, þá var Ted
Hughes með þeim snjallari sem ég hef lesið. Hinn tilfinningaþrungni og
virðulegi endir hans á ljóðinu „18 Rugby Street“, þegar hann líkir Sylviu
Plath við Ameríku, kemur út eins og rómantískur Vínarvals með endur-
tekningu í réttum þríðlið í orðinu ,Beautiful‘. Ljóðlínan er tíu atkvæði:
,Beautiful, beautiful America!‘25. Í öllum þrem skandinavísku þýðingunum
eru línurnar átta atkvæði og byrja á réttum, en hoppandi tvíliðum sem
minna frekar á nornirnar í Macbeth að kyrja: ,Vakre, vakre […]‘26, ,Vackra,
vackra […]‘27, ,Skönne, skönne […]‘28. Hallberg Hallmundsson var með sama
atkvæðafjölda í þýðingu sinni á þessari ljóðlínu og er í frumtextanum og
hann notaði frábæra og mjög svo skapandi lausn í bragarhættinum: ,Undur-,
undurfagra Ameríka!‘29. Þannig skapaði hann afslappað flæði í ljóðlínuna
sem er í samræmi við gleðivímuna, virðuleikann, fegurðina og einlæga til-
finningatjáninguna í frumtextanum.
Gæði ljóðaþýðinga skipta mjög miklu máli ekki síst vegna hins knappa
forms ljóðanna og skilningur á blæbrigðum í frummálinu skiptir þar ekki
minnstu máli. Þýðandinn þarf að koma yfir á sitt eigið tungumál allra
smæstu smáatriðum og litbrigðum tungumálsins. Ónákvæmnin í dönsku og
norsku þýðingunum á Afmælisbréfum er tæpast fyrirgefanleg.30