Tímarit Máls og menningar - 01.06.2017, Blaðsíða 8
S o f f í a B j a r n a d ó t t i r
8 TMM 2017 · 2
Trans-einstaklingar ganga oft í gegnum eigið inferno. Sjálfsvígstilraunir og
sjálfskaði einkennir sögur marga transkvenna og karla. Það er ekki tekið út
með fegurð og frelsi að fæðast í röngu kyni. Að vera á skjön við heiminn, á
skjön við sjálfan sig. Sína líkamsveru. En á sama tíma er þetta sigurganga.
Nú þekki ég aðeins einn transmann og hann er sonur minn. Saga hvers og
eins er einstök. Saga hans er merkileg og verður ekki sögð hér nema að mjög
litlu leyti. Þó að hann sé barnið mitt þá hef ég ekki hugmynd um allt það
hugrekki sem þarf til að brjótast úr slíkum viðjum. Að fæða sjálfan sig, skapa
sig og alla sína mynd og sinn skapnað á nýjan leik. Öll sú angist sem fylgir
þessu óvissuferli. Ég stend fyrir utan sem áhorfandi og get aðeins miðlað
ótta mínum og ást af veikum mætti. Eins og ég sé stödd á leiksýningu og
sem áhorfandi hef ég enga stjórn á sviðsetningu og framvindu verksins. Van-
máttur er það sem ég hef upplifað. Því ég get ekki hjálpað, ég get ekki tekið
sorgir hans í burtu, ég get ekki fært honum lífið sem hann á skilið. Fagurt líf.
Hann er á sinni vegferð og þarf að ganga þessi þungu skref einn. Ég reyni að
styðja við stoðir sem ég er oft hrædd um að bresti. Þegar hann er glaður þá
verð ég glöð. Þegar hann er dapur þá verð ég döpur. Þunglyndi og kvíði hefur
verið hluti af lífi okkar beggja. En það sem einkennir líf okkar í mun ríkara
mæli er það hugrekki sem þarf til að lifa fögru lífi. Lífinu sem okkur er ætlað.
Endurfæðing tekur langan tíma. Tekur jafnvel engan enda.
Í Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante fer sögumaðurinn Dante ásamt
fylgdarmanni sínum Virgli niður í Inferno. Í níu hringi helvítis. Eftir
Inferno tekur við Purgatorio, hreinsunareldurinn. Ég upplifi hringi Infernos
í þessu ferli og þegar hormónameðferðin hefst þá má segja að stigið sé inn í
hreinsunareld. Ég er hrædd. Hrædd um að hreinsunareldurinn vari allt lífið.
Ég þrái það heitast að sonur minn komist óskaddaður í gegnum eldinn og
upp í ljósið, Paradiso. Hann muni upp rísa.
Purgatorio hefst í þessu tilfelli með hormóninu testósteróni. Testósterón
hefur margvísleg áhrif í líkama okkar. Þetta hormón eykst í konum frá fer-
tugsaldri, en þá aftur minnkar það í karlmönnum. Náttúran er alltaf að
reyna að sætta, jafna út og sameina. Reyndar er testósterónmagn í líkam-
anum mjög breytilegt eftir einstaklingum almennt. Offramleiðsla þessa
hormóns veldur tómri áþján og því hefur verið fleygt að Egill Skallagrímsson
hafi verið haldinn hormónaójafnvægi. Að ljóst megi vera að ofbeldishneigðir
víkingar Íslendingasagna, sem höggva mann og annan, hafi átt við slíkt böl
að stríða.
Konur eiga það til að sækja meira fram þegar þær komast á miðjan aldur
og testósterónframleiðsla eykst. Þetta er að sjálfsögðu ofureinföldun á flóknu
samspili annarra hormóna, líkamsstarfseminnar í heild sinni, andlegs
atgervis, samfélagsgerðar, stöðu hvers einstaklings, persónuleika, áfallasögu,
fjölskyldustöðu og hvað eina. Eftir að frumburður minn hafði verið spraut-
aður reglulega með testósteróni í tæpt ár tók framkvæmdagleði hans og
áræðni nokkrum breytingum um tíma. Hann hafði átt erfitt með að treysta